Á Skjá einum er rabbþáttur um stjórnmál sem heitir Silfur Egils til heiðurs Skallagrími, helsta gesti þáttarins. Sá var þó ekki í þættinum um helgina en þar var Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði og var hann þangað kominn til að ræða hvort líkur væru á að heimskreppa skylli á innan skamms. Skemmst er frá því að segja að Þorvaldur taldi þetta af og frá og sagði hagstjórnarþekkingu á svo háu stigi í dag að alvarleg mistök á borð við þau sem dundu yfir fyrir rúmum sjö áratugum geti ekki endurtekið sig. Sé kreppa að skella á lækki seðlabankar til dæmis vexti og þar með snúist hjól atvinnulífsins á nýjan leik, svo notaður sé frasi áhugamanna um umræður um efnahagsmál. Nú ætlar Vefþjóðviljinn ekki að boða heimskreppu og tekur undir með Þorvaldi að hún er ósennileg. Ástæðurnar eru hins vegar tæplega þær að hagstjórnarspekingar seðlabanka og annarra opinberra stofnana séu nú svo snjallir að þeir beini fjármagni og kaupmætti ávallt í réttar áttir skyldi þetta leiðast afvega. Aukin alþjóðaviðskipti og sérstaklega aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum er veigameiri þáttur í að koma í veg fyrir djúpa og langvarandi efnahagslægð.
Lítum á hagstjórnarspekingana og hversu vel þeim gengur að stilla hagkerfið af. Sé búið að leysa flest eða öll hagstjórnarvandamál ættu allir sæmilega menntaðir hagfræðingar að vera sammála um þær leiðir sem á að fara þegar vanda ber að höndum. Svo er alls ekki. Hvarvetna er deilt um hvort hækka eigi eða lækka vexti, hvaða reglur, ef einhverjar, skuli gilda um flutning skammtímalánveitinga milli landa, hvort hækka eigi skatta eða lækka, hvort setja skuli fleiri eða færri reglur á vinnumarkaðnum, hvort vernda skuli atvinnuvegi tímabundið eða ekki. Og svo framvegis, og svo framvegis. Jafnvel þó segja megi að flestir hagfræðingar séu sammála um sum þessara álitaefna þá nægir það ekki til að réttar ákvarðanir séu teknar. Hagfræðingar ráða ekki einir öllum hlutum (sem betur fer), heldur hafa stjórnmálamenn líka puttana á hagstjórnartökkunum (því miður). Og þó stjórnmálamenn vilji oftast vel þá eru þeir iðulega bæði of illa upplýstir og of háðir vinsældakönnunum til að taka „réttar“ ákvarðanir. Þegar af þessum ástæðum verður að vantreysta hagstjórnarlistinni og gjalda varhug við því ef menn þykjast hafa fundið sannleikann og treysta ríkinu og stofnunum þess til að koma honum á.
Um vanmátt hagstjórnarsnillinganna má taka tvö dæmi. Í Svíþjóð var fyrir nokkrum árum reynt að halda uppi gengi krónunnar með ofurvöxtum (vextirnir hér á landi mælast ekki í samanburðinum) en allt kom fyrir ekki. Spekin brást og sænska krónan með. Þrátt fyrir ofurvextina hrundi gengið. Í Japan hefur síðustu misseri verið reynt að nota vexti til að lyfta undir efnahagslífið. Þar hefur seðlabankinn verið með vexti við núllið í langan tíma en allt kemur fyrir ekki, efnahagslífið lætur ekki segjast. Í báðum tilvikum eru snjallir hagfræðingar að fást við hagstjórnina, en hagkerfið er flóknara en svo að það megi fínstilla með vöxtum eða öðrum tækjum hins opinbera.
Þýðir þetta að allt sé vonlaust? Nei, en þetta þýðir að ekki dugar að treysta á að ríkið grípi inn í eftir á þegar í óefni er komið og kippi efnahagslífinu í liðinn ef það er úr lagi gengið. Öruggasta leiðin er að koma í veg fyrir að efnahagslífið gangi úr lagi og það er gert með frjálsu atvinnulífi og takmörkuðum afskiptum hins opinbera. Í því felst meðal annars að halda íþyngjandi reglum og sköttum í lágmarki og leyfa frjáls viðskipti bæði innan lands og utan. Verður þá minni ástæða til að óttast djúpar efnahagslægðir.