Miðvikudagur 4. apríl 2001

94. tbl. 5. árg.

Umhverfisverndarsinni leggur sitt af mörkum í umræðum um Kyoto-bókunina í Haag á síðasta ári. Frank Loy samningamaður Bandaríkjanna nýtur góðs af.

Það má vel vera að ýmsir íslenskir fjölmiðlamenn hafi enn ekki sætt sig við úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum á síðasta ári og vilji sem fyrst gleyma þeim margföldu vonbrigðum sem endurteknar talningar höfðu í för með sér fyrir þá. Engu að síður geta menn enn á auðveldan hátt rifjað upp kosningaloforð George W. Bush. Til dæmis geta þeir sem öllu hafa gleymt lesið um áherslur hans í umhverfismálum á kosningasíðu hans. Þar má til dæmis lesa um eindregna andstöðu hans gegn Kyoto bókuninni.

Í netútgáfu Morgunblaðsins í gær sagði hins vegar: „Í kosningabaráttu sinni lofaði Bush að staðfesta Kyoto-bókunina en hann hefur nú svikið loforðið“. Þótt lesendur Morgunblaðsins hafi sjálfsagt lært það nú þegar taka fréttum blaðsins af George W. Bush með fyrirvara er ástæða til að staldra við þetta atriði því aðrir fjölmiðlar hafa einnig tekið þessa dellu um Kyoto upp á arma sína. Í leiðara DV í gær sagði um Bush: „Hæst ber svik Bush við kosningaloforð sitt um stuðning við Kyoto sáttmálann um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda.“

Í stefnuskrá Bush sagði hins vegar um Kyoto bókunina: „Andvígur Kyoto bókuninni. Hún er óskilvirk, ófullnægjandi og ósanngjörn gagnvart Bandaríkjunum. Um 80% heimsins er undanþegin þátttöku, þeirra á meðal fjölmenn ríki eins og Kína og Indland.“
Bush viðraði þessa afstöðu hvað eftir annað og frá henni var bæði sagt í DV og Morgunblaðinu fyrir forsetakosningar vestra. Vef-Þjóðviljinn sagði einnig frá þessari skýru afstöðu Bush gegn Kyoto skömmu fyrir kosningar. Afstaða Bush til Kyoto er í samræmi við afstöðu um 90% þingmanna í öldungadeild Bandaríkjaþings. Öldungadeildin þarf að samþykkja Kyoto samninginn til að hann hljóti staðfestingu Bandaríkjanna. Flestir evrópskir stjórnmálamenn hafa hins vegar lofað að staðfesta Kyoto bókunina en ekkert Vestur-Evrópuríki hefur enn staðfest bókunina.

Hér er því komin uppsláttur fyrir Morgunblaðið og DV: George W. Bush stendur við efasemdir sínar um Kyoto bókunina. Evrópskir stjórnmálamenn í löngum röðum hafa lofað að staðfesta Kyoto bókunina, en efndirnar eru engar.