Einkaeignarréttur er forsenda markaðshagkerfisins og hann er jafnframt það sem helst skilur milli fátækra landa og ríkra. Í nýjasta tölublaði The Economist er fjallað um skort í fátækustu löndum heims, þ.e. skort á einkaeignarrétti. Tímaritið bendir á að í raun sé mikil verðmæti að finna í fátækustu löndum heims, en gallinn sé sá að fólkið þar geti ekki nýtt þessar eignir til frekari auðsköpunar. Tekið er dæmi af fjölskyldu sem lifir á að slátra geitum í Malaví, en Afríkuríkið Malaví er eitt fátækasta ríki heims. Eftirspurn eftir geitakjöti er mikil og fjölskyldan hefur hug á að víkka starfsemi sína út. Til þess þarf fjármagn, en fjölskyldan hefur engan aðgang að fjármagni og þarf mörg ár til að safna fyrir nauðsynlegum tækjum. Á Vesturlöndum gæti fólk í þessari aðstöðu tekið lán út á eigur sínar, en í Malaví og öðrum fátækustu ríkjum heims getur fólkið ekki sýnt fram á eignarrétt sinn fyrir rétti og fær því ekki það fjármagn sem þarf til að skapa meiri auð. Niðurstaðan er sú að framfarir verða litlar og gerast hægt.
Mikilvægur liður í að koma efnahag fátækustu ríkjanna í lag felst í því að skilgreina eignarrétt borgaranna. Þetta er vissulega vandasamt en saga Vesturlanda sýnir að þetta er ekki ómögulegt. Vilji Vesturlandabúar hjálpa fátækustu ríkjum heims er líklega tvennt árangursríkast. Annars vegar að eiga viðskipti við ríkin, en þvælast til að mynda ekki fyrir innflutningi landbúnaðarafurða frá þeim.

Hins vegar að hvetja þau til að skilgreina einkaeignarrétt. Þessi ríki – og raunar flest önnur einnig – geta svo dæmi sé tekið lært töluvert af Íslendingum varðandi stjórn fiskveiða og kosti þess að skilgreina einkaeignarrétt í fiskveiðum.
Þess má geta að fyrrnefnd grein í The Economist er að hluta til byggð á bókinni The Mystery of Capital: Why Capitalism Triumphs in the West and Fails Everywhere Else, eftir Hernando de Soto, hagfræðing frá Perú. Í bókinni kemur fram að heildarvirði fasteigna sem fátækir íbúar í þriðja heiminum hafa til umráða, en eiga ekki samkvæmt lögum, sé umtalsvert. Það sé að minnsta kosti 20 sinnum meira en öll bein erlend fjárfesting í þessum löndum á árunum 1989-1999. Svo notuð sé önnur viðmiðun séu þessar „eignir“ fátækasta fólksins í þriðja heiminum 93 sinnum sú upphæð sem ríku löndin hafa veitt í þróunarstyrk til fátæku ríkjanna síðustu þrjá áratugi. Fátæku ríkin eru samkvæmt þessu ekki endilega eins fátæk og opinberar hagtölur gefa til kynna, en lög og reglur í ríkjunum gera borgurunum erfitt fyrir að efnast.