Það er tvíeggjað að njóta sérstakrar verndar eða aðstoðar ríkisins. Íslenskir bændur geta vitnað um það. Evrópsk kvikmyndagerð er einnig í sífelldu basli og hefur ekki roð við bandarískri þrátt fyrir víðtækt styrkjakerfi og opinbera forsjá. Vernd ríkisins leiðir nefnilega til rangrar fjárfestingar. Þau fyrirtæki sem notið hafa opinberrar aðstoðar t.d. frá Byggðastofnun um lengri eða skemmri tíð hafa verið afvegaleidd með ódýru fjármagni. Þau þurfa ekki að lúta húsbóndavaldi neytenda eins og önnur fyrirtæki og þegar styrkjunum sleppir sitja þau uppi með óarðbæra fjárfestingu. Á litlum vinnumarkaði, t.d. í þorpi á landsbyggðinni, hafa styrkir einnig þau áhrif að vinnuafl er bundið í óarðbærum fyrirtækjum í stað þess að það nýtist öðrum fyrirtækjum. Ýmsir þingmenn af landsbyggðinni hafa litið á opinbera styrki til fyrirtækja sem lausn á bágu atvinnuástandi. Miklu nær er að líta á þessa styrki sem ástæðuna fyrir því að arðbær atvinnurekstur hefur ekki náð að skjóta rótum. Hvernig á arðbær rekstur að geta keppt við fyrirtæki sem starfa í sýndarveröld ókeypis fjármagns frá hinu opinbera?
Forsvarsmenn tveggja öflugra fyrirtækja í sjávarútvegi hafa að undanförnu gagnrýnt afskipti Byggðastofnunar af sjávarútvegsfyrirtækjum. Kristinn H. Gunnarsson stjórnarformaður Byggðastofnunar hefur brugðist við þessari gagnrýni með skætingi. Hann hefur ekki getað svarað því hvers vegna fyrirtækjum er mismunað á þennan hátt. Kristinn virðist telja sjálfan sig besta fjárfesti landsins. Hann tekur þó ekki áhættuna sjálfur heldur bera skattgreiðendur alla áhættu af brölti hans í atvinnulífinu. Almenningur bar til dæmis alla áhættuna af fjárfestingu Byggðastofnunar í fyrirtækinu Vestfirskri miðlun en arðsemi þeirra fjárfestingar var -100%. Í þessu sambandi má einnig geta þess að Kristinn vildi – og hér skiptir að sjálfsögðu ekki máli að Kristinn er frá Bolungarvík – að Sparisjóður Bolungarvíkur fengi innheimtu fyrir Byggðastofnun. Það er þó hætt við að þetta verði lítil innheimta ef arðsemi annarra fyrirtækja sem Kristinn styrkir verður svipuð og hjá Vestfirskri miðlun. Um viðbrögð Kristins við gagnrýninni á styrki Byggðastofnunar til einstakra sjávarútvegsfyrirtækja sagði m.a. í leiðara Viðskiptablaðsins í vikunni: „Viðbrögð stjórnarformanns Byggðastofnunar við gagnrýninni eru aftur á móti með ólíkindum. Í stað málefnalegra andsvara er gripið til persónulegra árása á formann stjórnar Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. Stjórnarformaður Byggðastofnunar ræðst á tvö af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins sem einmitt hafa náð góðum árangri við að byggja upp atvinnu á landsbyggðinni og bæta lífskjör þar með því að nýta sér kosti fiskveiðistjórnunarkerfisins og fara eftir leikreglunum.“
Byggðastofnun heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra er þar með æðsti yfirmaður stofnunar sem hefur það eitt að markmiði að mismuna fyrirtækjum með ríkisstyrkjum og skekkja samkeppnisstöðu þeirra. Undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra heyrir einnig Samkeppnisstofnun en sú stofnun vinnur einnig markvisst gegn hagræðingu og aukinni arðsemi í íslensku atvinnulífi með því að skipta sér af stærð, samstarfi og sameiningu fyrirtækja. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra stýrir sannkölluðu afskiptaráðuneyti.