Mánudagur 26. mars 2001

85. tbl. 5. árg.

Í dag rennur út frestur til að skila skattframtali á pappír. Þeir sem skila skattframtali á rafrænu formi á netinu fá lengri frest enda mun allt þyngra í vöfum á upplýsingahraðbraut þekkingarsamfélagsins í nýja hagkerfinu en í gamla hagkerfinu. Nú er skatturinn líka farinn að senda framteljendum sumar tölurnar sem launagreiðendur, fasteignamatið, bankar og verðbréfafyrirtæki senda einnig. Nú koma þær bæði fram á framtalsblaðinu og einnig á yfirlitsblaðinu og einnig á netinu. Þannig geta framteljendur fengið sömu töluna eftir fjórum eða fimm leiðum og skilað einu eintaki til skattsins sem hefur sjálfur eitt eintak fyrir sig. Þetta er til mikils hagræðis og furðulegt hvernig menn fóru að hér áður þegar menn höfðu aðeins eitt eintak af hverri tölu og þurftu að skila henni til skattsins.

Vef-Þjóðviljinn veit að ýmislegt freistar framteljenda þegar skattskýrslan er fyllt út. Vafalaust eru ýmsir að velta því fyrir sér hvort telja eigi fram að fullu þær tekjur sem fengust nótulaust á síðasta ári og ekki var skilað inn staðgreiðslu af. Verður það sjálfsagt mörgum framteljandanum sálarhjálp að á þessu ári er skattgreiðendum boðið upp á það í fyrsta sinn, að vísu nauðugum, að greiða í nýjan fæðingarorlofssjóð. Sá sjóður veitir fólki með háar tekjur hæstu félagslegu bætur Íslandssögunnar. Mun það án efa hafa hvetjandi áhrif á skattgreiðendur þegar þeir vita að skattarnir eru ekki notaðir til að styðja einhverja öreiga heldur fólk með almennilegar tekjur.

En það er margs að gæta þegar skatturinn er annars vegar. Þeir sem fóru upp um eitt eða tvö launaþrep á síðasta ári kunna að hafa fagnað af því tilefni og þeir kunna einnig að hafa fagnað því að fasteignir þeirra hækkuðu í verði. Ef könnuð eru afdrif launahækkunar hjá þriggja barna fjölskylduföður sem hefur hækkað úr 280 þúsundum í 297 þúsund á mánuði þá kemur ýmislegt í ljós. Heildartekjuaukningin á síðasta ári hefur verið um 200 þúsund krónur. Við nánari skoðun á afdrifum þessara 200 þúsund króna hækkunar kemur eftirfarandi í ljós:

Staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars, 38,37%: 76.740
 Hátekjuskattur , 7%: 14.000
 Skerðing vaxtabóta, 6%: 12.000
 Skerðing barnabóta, 11%: 22.000
 Aukin afborgun námslána, 3,75%:   7.500

Þá standa eftir 68.500 krónur eða aðeins 34% af launahækkuninni!  Þar með er ekki öll sagan sögð. Hækkun á fasteignaverði leiddi til 20.000 króna hækkunar á fasteignagjöldum fjölskylduföðurins. Þá standa eftir rúm 24%.