Helgarsprokið 25. mars 2001

84. tbl. 5. árg.

Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga hefur verið vinsælt baráttumál í íslenskum stjórnmálum, sér í lagi meðal þeirra stjórnmálamanna sem ekki vita fyrir hvað þeir standa en vilja þó vera í sviðsljósi stjórnmálanna. Tilgangur þess að færa verkefni milli stjórnsýslustiga er að verkefnin verði unnin með skilvirkari hætti. Þá heyrist jafnvel að sveitarstjórnir séu „nær“ borgurunum í einhverjum skilningi og því sé æskilegt að þær sinni fleiri málum og ríkið færri. Því miður verður að segjast að árangur af tilfærslu verkefna hefur ekki verið áberandi góður og sveitarfélögin virðast ekki ráða við þau verkefni sem þeim eru fengin. Nema þá helst með því að hækka skatta og safna skuldum. Þegar tvö tímabil eru skoðuð, áttundi og níundi áratugur síðustu aldar, sést að á fyrra tímabilinu eru sveitarfélög landsins að meðaltali ýmist rekin með halla eða afgangi, en á síðara tímabilinu er undantekningarlaust hallarekstur. Nú hugsar ef til vill einhver að hallarekstur einn og sér segi ekkert, en þegar litið er á þróun gjalda og tekna verður augljóst að hallinn er ekki vegna minnkandi tekna eða þrátt fyrir samdrátt gjaldamegin. Bæði tekjur og gjöld hafa blásið út á síðustu árum og gjöldin meira en tekjurnar. Gildir þá einu hvort skoðuð er krónutala í heild, krónutala á haus eða hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Þetta er drjúgur árangur í skattahækkun á einu kjörtímabili – að fara úr lægstu mögulegu prósentu í þá hæstu. En hér verður að hafa í huga að Helgi Hjörvar, hægri hönd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, lofaði því hátíðlega fyrir síðustu kosningar að gjöld á Reykvíkinga yrðu lækkuð.

Ekki þarf annað en líta á útsvarsprósentuna síðustu árin til að sjá hvers vegna tekjur sveitarfélaganna hafa aukist svo mjög. Hámarksútsvarsprósenta árið 1998 var 12,04%, en er 12,70% í ár. Lágmarksútsvarsprósentan er hins vegar óbreytt 11,24%. Mikill fjöldi sveitarfélaga hefur misnotað þessa heimild og leggur nú á hámarksútsvar. Ef Reykjavíkurborg er tekin sem dæmi þá var hún með lágmarksprósentuna árið 1998, en hefur síðan hækkað hlutfallið og er nú komin upp í hámarkið, 12,70%. Þetta er drjúgur árangur í skattahækkun á einu kjörtímabili – að fara úr lægstu mögulegu prósentu í þá hæstu. En hér verður að hafa í huga að Helgi Hjörvar, hægri hönd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, lofaði því hátíðlega fyrir síðustu kosningar að gjöld á Reykvíkinga yrðu lækkuð. Eftir slíkt loforð frá þess háttar manni voru dagar lágmarkshlutfallsins augljóslega taldir.

Ef dæmi er einnig tekið af þróun heildarskulda Reykjavíkurborgar þá má sjá að þær hækkuðu úr 7,7 milljörðum króna árið 1991 í 29,6 milljarða króna árið 1999. Frá þeim tíma hafa þær enn hækkað og gera áætlanir ráð fyrir að þær hækki um tvo milljarða króna á þessu ári. Rétt er að ítreka að þessi skuldasöfnun sveitarfélagsins á sér stað þrátt fyrir stórauknar tekjur, en Reykjavíkurborg hefur notið þess mjög að kaupmáttur launa hefur vaxið hratt síðustu ár. Fyrrnefnd útsvarshækkun kemur því ofan í auknar útsvarstekjur borgarinnar vegna launahækkana almennings. Það er einnig athyglisvert að setja þessar skattahækkanir og skuldasöfnun í samhengi við þróunina hjá ríkinu. Á sama tíma og Reykjavíkurborg hefur hækkað skatt á tekjur borgarbúa úr 11,24% í 12,70% hefur ríkið lækkað hlutfall sitt úr 27,41% í 26,08%. Þrátt fyrir þessu lækkun hjá ríkinu en hækkun hjá borginni hafa skuldir ríkisins minnkað mikið en skuldir borgarinnar rokið upp.

Nú kann einhver að halda að þessi hækkun hjá borginni sé náttúrulögmál og hvergi megi spara eina einustu krónu. Ólíklegt er svo sem að nokkur sé þessarar skoðunar en sá sem trúir þessu þó gæti gert margt vitlausara en heimsækja heimasíðu borgarinnar og kanna hvort þar er ekki fjallað um eitt og annað sem hann mundi ekki sakna. Hann gæti líka kannað hvort ekki séu einhver augljós dæmi um aukningu borgarkerfisins á síðunni. Vefþjóðviljinn gerði það að gamni sínu að fara inn á síðuna og sjá hvort hann fyndi nokkuð sem benti til útgjaldaþenslu borgarinnar. Ekki þurfti að fara lengra en inn á forsíðuna, en þar er verið að auglýsa starf forstöðumanns tölvumála hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar. Þetta er nýtt starf og flokkast líklega undir nýsköpun Reykjavíkurborgar og viðleitni R-listans til fjölgunar atvinnutækifæra í borginni. Vitaskuld er virðingarvert að skapa ný störf fyrir allan þann urmul tölvunarfræðingar sem í dag mælir göturnar á atvinnuleysisbótunum einum saman, en þó verður ekki hjá því komist að benda á að hingað til hefur Reykjavíkurborg komist af án slíks starfskrafts og gat vitaskuld gert það áfram. Stjórnendur borgarinnar hafa bara engan áhuga á að létta skattgreiðendum byrðarnar, hvorki þeim sem greiða hámarksútsvarið nú eða hinum sem greiða munu skuldirnar í framtíðinni.

Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög telja sig líka hafa komið sér upp því skálkaskjóli að geta sífellt vísað til þess, þegar þau eru gagnrýnd fyrir þunga skattbyrði og skuldasöfnun, að verkefni hafi verið færð frá ríki til sveitarfélaga en tekjur ekki fluttar til samræmis. Þó er það auðvitað svo að tekjur hafa verið fluttar um leið og verkefni, en að auki hafa sveitarfélög hækkað útsvarsprósentuna sem mest þau máttu. Ofan á þetta auka þau svo skuldir til að geta örugglega keypt alla hugsanlega þrýstihópa til fylgilags við sig. Þannig ver Reykjavíkurborg 8% af skatttekjum til íþróttamála og 5% til menningarmála. Hvergi má finnast óánægður knattspyrnumaður, þungbúinn myndhöggvari, ósáttur fimleikamaður eða nöldrandi leikari. Allir verða að fá allt til alls frá píndum skattgreiðendum.