Í gær hljóp á snærið hjá 63 alþingismönnum. Ungir sjálfstæðismenn færðu þeim þá að gjöf bókina Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt, en hún kom út í íslenskri þýðingu fyrir síðustu jól. Vefþjóðviljinn fjallaði um bókina á sínum tíma og sagði þá meðal annars að í henni væri slegið á ýmsar hagfræðilegar ranghugmyndir sem hagsmunahópar reyni að halda að fólki. Slík bók er holl lesning sérhverjum áhugamanni um heilbrigða skynsemi. Sérstaklega er ánægjulegt að þessi bók sé nú alþingismönnum tiltæk, þó eflaust muni hún vekja misjafnan fögnuð í þeim hópi. Og þó Henry Hazlitt sé rökfastur höfundur þá er því alls ekki að treysta að honum verði mikið ágengt með þá þingmenn sem mesta þörf hafa fyrir að kynna sér grundvallaratriði hagfræðinnar. En þó ekki sé víst að þingmenn taki skynsamari afstöðu til mála eftir lestur bókarinnar en áður, þá má að minnsta kosti ætla, að þeir sem kynna sér Hagfræði í hnotskurn muni að því loknu sjaldnar halda fram tómum misskilningi í góðri trú.
Tveir þeirra sem fengu bókina að gjöf mættust í útvarpsviðræðum í vikunni og ræddu þar meðal annars um gagnsemi verkfalla. Annar þeirra benti á að í seinni tíð hefðu ýmsir litlir hópar sem gegna mikilvægum störfum í þjóðfélaginu en eru á ágætum launum beitt verkföllum fyrir sig með góðum árangri fyrir sjálfa sig en væntanlega síðri fyrir aðra. Hann taldi umhugsunarvert hvort verkföll ættu rétt á sér og hvort þau væru almennum launamönnum til gagns. Hinn þingmaðurinn efaðist ekki um gildi verkfalla, en það þarf ekki að koma á óvart þegar þess er gætt að hann gegnir formennsku í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og hefur því sérstaka hagsmuni af því að verkalýðsfélög hafi önnur og meiri réttindi en aðrir.
Full ástæða er til að efast um að barátta verkalýðsfélaga fyrir hærri launum skili sér og sé til góðs. Formaður BSRB vill ekki efast um þetta, en hugsanlegt er að jafnvel hann fari að velta þessu fyrir sér ef hann les þann kafla í nýju bókinni sinni þar sem fjallað er um hvort verkalýðsfélög hækki raunlaun. Í bókinni eru færð fyrir því hagfræðileg rök að verkalýðsfélög geti ekki hækkað raunveruleg laun, þau hækki aðeins með aukinni framleiðni starfsmanna. Eitt ráð til þess er að auka fjármagn sem notað er, en ýmsum vinstri sinnuðum verkalýðsrekandanum hugnast lítt að því að fjármagni sé safnað. Það er því erfitt við slíka menn og skoðanabræður þeirra að eiga, hvort sem er á þingi eða annars staðar. En ef einhverjir þingmenn skilja hagfræðileg lögmál (betur) við lestur fyrrnefndrar bókar er þó nokkrum árangri náð.