„Reykvíkingar hafa talað,“ var fyrirsögn greinar Hrannars B. Arnarssonar borgarfulltrúa í Morgunblaðinu í gær. Þar lýsti borgarfulltrúinn þeirri skoðun sinni að niðurstaða kosningar meðal Reykvíkinga um það hvort flugvöllur eigi að vera í Vatnsmýri eða ekki eigi að ráða úrslitum um staðsetningu vallarins. Vefþjóðviljinn hefur áður bent á þá afar einföldu staðreynd að fyrir kosningarnar voru settar reglur sem allir töldu að farið yrði eftir að kosningum liðnum. Þær reglur hljóðuðu upp á að 75% atkvæðisbærra manna yrðu að kjósa eða að yfir 50% yrðu að taka sömu afstöðuna til að kosningin yrði bindandi, þ.e. réði úrslitum um staðsetningu vallarins. 37% þátttaka og 18% stuðningur við hvora skoðun uppfyllir hvorugt skilyrðið. Grein Hrannars á því ekki við rök að styðjast og verður hann að óbreyttu ekki tekinn alvarlega í þessu sambandi.
Hrannar er hins vegar í einstakri aðstöðu til að láta taka sig alvarlega í þessu efni. Þegar hann var kosinn í borgarstjórn fyrir tæpum þremur árum þótti ýmsum borgarbúum, jafnvel stuðningsmönnum R-listans, að vegna fortíðar hans væri ekki æskilegt að hann settist í borgarstjórn. 22,4% kjósenda R-listans lýstu þessari skoðun sinni í kosningunni með því að strika hann út, en þetta er töluvert hærra hlutfall en þau 18% kjósenda í Reykjavík sem höfðu tiltekna skoðun á flugvelli. Í báðum tilvikum hefði þurft yfir 50% atkvæða til að ráða úrslitum, en í hvorugu tilviki náðist það hlutfall. Þó er ljóst að útstrikanir Hrannars voru tiltölulega mun fleiri en sá fjöldi sem vildi flugvöll á brott. Ef Hrannar er raunverulega þeirrar skoðunar að breyta eigi leikreglum eftir á og miða ekki við 50% heldur annað og lægra hlutfall í slíkum kosningum, þá hlýtur hann nú að víkja úr borgarstjórn.
Reykvíkingar bíða spenntir eftir afsögn Hrannars, en menn spyrja sig hvort útstrikanir félaga hans Helga Hjörvar dugi til að sá verði að víkja. 5,5% kjósenda R-listans strikuðu Helga út og nú þarf að fá upplýst hvort 5,5% duga til að ráða úrslitum kosningar þar sem reglurnar mæltu fyrir um 50%. Álit Hrannars liggur sum sé fyrir um að 18% nægja, en duga 5,5%? Reykvíkingar bíða vongóðir eftir því að Helgi muni fylgja félaga sínum Hrannari úr borgarstjórn, og telja líklegt að þeir félagar fari eftir „lýðræðislegum vilja“ 5,5% kjósenda R-listans nú þegar hin mikla lýðræðisást hefur náð tökum á listanum.
Vefþjóðviljinn leyfir sér að nota þetta tækifæri og kveðja Arnarsson & Hjörvar, sem nú munu væntanlega einhenda sér í rekstur margra þjóðþekktra fyrirtækja sinna.