Þriðjudagur 27. mars 2001

86. tbl. 5. árg.

International Herald Tribune sagði frá því í gær að í Sviss væri til athugunar að lögleyfa vægari gerðir fíkniefna, maríúana og hass. Í könnun sem svissneska ríkið lét gera í febrúar síðast liðnum voru 53% þátttakenda hlynntir slíkri lögleyfingu. Í Sviss tala menn um að með lögleyfingu væri aðeins verið að viðurkenna nokkuð sem nánast er orðið að veruleika. Samkvæmt fréttinni er afar auðvelt að nálgast kannabisefni í Sviss, þau munu til að mynda vera til sölu í tíu verslunum í Bern og þær má finna undir orðinu kannabis í símaskránni. Sala kannabisefna til reykinga er að vísu bönnuð í Sviss, en í þýskumælandi hluta landsins er banninu ekki framfylgt af hörku. Ráðamenn í Sviss segja að þeir hafi áhuga á að fara nýjar leiðir vegna vægari fíkniefna, því þær sem reyndar hafi verið hafi reynst ófærar. Í fréttinni er haft eftir starfsmanni í heilbrigðisráðuneytinu að þessi breyting myndi draga úr notkun annarra fíkniefna, svo sem heróíns og kókaíns, sem áfram yrðu bönnuð þó ekki yrði endilega ákært vegna brota á þeim lögum.

Það eru fleiri en Svisslendingar sem hafa áttað sig á að fíkniefnabannið gengur ekki upp. Höfundar kvikmyndarinnar Traffic eru auðvitað ágætt dæmi en einnig ríkisstjóri Nýju Mexíkó, sem hefur opinberlega barist gegn banninu. En nýjasta dæmið er líklega forseti Mexíkó, Vicente Fox, sem berst nú gegn þeirri spillingu og ofbeldi sem orðið hefur í landinu vegna fíkniefnabannsins. Fox, sem berst nú með Bandaríkjastjórn í vonlausu stríði gegn framleiðslu og flutning fíkniefna, sagði á dögunum að eina leiðin til að sigra í stríðinu við fíkniefnin væri að lögleyfa þau og eyða þar með gróðanum og ofbeldinu sem banninu fylgir.

Hér á landi virðist viðhorfið einnig vera að breytast og æ fleiri eru farnir að viðurkenna opinberlega að þeir hafi efasemdir um að fíkniefnabannið skili árangri. Þeir sem þetta segja eru ekki með því að mæla með neyslu fíkniefna, flestir mundu þeir vafalaust mæla gegn neyslu þeirra. Þeir benda aðeins á að þrátt fyrir að fíkniefni geti valdið alvarlegum skaða, þá veldur bannið enn meiri skaða. Eitt af því sem skiptir máli í þessu sambandi er að þegar fíkniefni eru bönnuð eru það ekki aðeins fíklarnir og fjölskyldur þeirra sem þjást vegna misnotkunar efnanna, heldur þarf allur almenningur að gjalda vegna bannsins, meðal annars vegna aukinnar glæpatíðni.