Laugardagur 10. mars 2001

69. tbl. 5. árg.

Fréttir bárust af því í gær að yfirmaður sænsku lögreglunnar hefði greint frá þeirri skoðun sinni að auka þyrfti hlut kvenna í lögregluliðum Evrópu svo þau yrðu „lýðræðisleg“. Þessi yfirmaður sænsku lögreglunnar færði þau rök fyrir þessari skoðun sinni að „lýðræðislegt lögreglulið“ yrði að endurspegla það samfélag sem það þjónaði og þar sem helmingur samfélagsins væri konur yrði hlutfall kvenna í lögreglunni að hækka.

Sænska lögreglustjóranum virðist þó hafa láðst að geta þess hversu stór hluti lýðræðislega lögregluliðsins þyrfti að vera frátekinn fyrir þjófa eða hversu hátt hlutfall lögreglumanna þyrfti að hafa dóma um ofbeldisglæpi á bakinu. Þó má fullyrða að þegar lýðræðisleg sjónarmið Svíans verða komin til lýðræðislegrar framkvæmdar verður lýðræðisleg atvinnuleit auðveldari fyrir þá sem lokið hafa lýðræðislegri afplánun.

Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækis þess Línu.Nets, hefur lýst þeirri skoðun sinni að Reykjavíkurborg muni sko ekki fara að dreifa klámi til borgarbúa og hvetur hann ríkið til að dreifa ekki heldur klámi til landsmanna. Óhætt er að taka undir þessi orð Alfreðs, en það er hins vegar rétt að skoða í hverju vandinn liggur. Hvers vegna þarf að koma til umræðu að Reykjavíkurborg sendi út eitthvert tiltekið myndefni? Jú, ástæðan er sú að Alfreð og Helgi Hjörvar fóstbróðir hans þurftu fyrir nokkrum misserum að vera nútímalegir á kostnað skattgreiðenda og stofnuðu þá fyrirtækið Línu.Net. Skattgreiðendur hafa tapað stórfé á þessu ævintýri, en fyrirtækið á meðal annars að senda myndefni til áskrifenda. Vandinn liggur í því að Alfreð og Helgi létu borgina fara út í verkefni sem eiga heima í höndum einkaaðila. Það er verkefni fyrir einkaaðila en ekki Reykjavíkurborg að stuðla að dreifingu kvikmynda, hvort sem þar er um að ræða náttúrulífsmyndir eða grófar glæpamyndir á borð við Al Capone (1959), Dillinger and Capone (1995), The Lost Capone (1990), Capone (1975), The Untouchables (1987), Capone (1989) og The Prohibition Era (1997), svo örfá dæmi séu nefnd.