Ríkissjónvarpið flutti af því mikla frétt í gærkvöldi að einhver maður hugi nú að stofnun stjórnmálaflokks. Flokkur þessi – ef hann verður til – mun verða nokkuð upptekinn af því hvort menn geti rakið ættir sínar til Skallagríms Kveldúlfssonar eða hvort hvort menn eru skyldari öðrum útlendingum. Vafalaust verður Guðrúnu Ögmundsdóttur og fleiri einkaréttarhöfum umbuðarlyndis fengur að þessum flokki. Með honum geta þau efnt til rökræðna við forsvarsmenn hans og þannig sýnt fram á eigið ágæti og fordómaleysi. Ekki er hins vegar ljóst hvers vegna Ríkissjónvarpið flutti fregn um þessa hugdettu um stofnun stjórnmálaflokks. Það mætti svo sem skilja ef þeir fjölmiðlar eða fjölmiðlungar sem ekki reyna að halda því fram að þeir séu vandaðir tækju upp á því að fjalla um slíkt (og fengju umburðarlyndisréttarhafa úr Samfylkingunni til að andmæla), en einkennilegt að fréttastofa með stóran hóp af fréttamönnum, vaktstjórum, aðstoðarfréttastjórum og fréttastjóra skuli taka þátt í þessu. Það er að segja, ef hún vill láta taka sig alvarlega.
Þessi „flokkur“ er ekki aðeins ómerkileg hugarfluga einhvers manns og nokkrar mínútur á besta tíma í sjónvarpi, því ef marka má stefnumálin er um enn einn vinstri flokkinn að ræða. Hann verður í raun ekki ósvipaður Vinstri hreyfingunni – grænu framboði verði af stofnuninni. Í stefnu hins óstofnaða flokks segir m.a.: „Ríkið eignist þá aðila er þjóðfélagslegt öryggi eður hagkvæmni felur í sér að séu betur komnir í faðmi ríkisins.“
En ef það þykir þjóðfélagslega hagkvæmt og öruggt að menn sem setja slíkt fram starfi við númeraplötusmíði og hellugerð fyrir hið opinbera?
Í gær var birt frétt um fíkniefnamál og sagði þar meðal annars: „Lögreglan í Reykjavík handtók þrjú fíkniefni vegna gruns um fíkniefnaneyslu á framhaldsskóladansleik í nótt. Á þeim fannst hass og amfetamín.“ Ef til vill kemur það ekki á óvart að efnin sjálf séu handtekin og sett í járn eftir að skúffan á lögreglustöðinni brást um árið og efnin struku af stöðinni á dularfullan hátt. Fréttin minnir þó aðallega á einn helsta misskilninginn í umræðunni um fíkniefnamálin, nefnilega hið svo kallaða stríð við fíkniefnin, eða „War on Drugs“, eins og Kaninn nefnir það. Stríðið við fíkniefnin hefur eins og önnur stríð orðið til þess að sumir menn halda að öll vopn séu leyfileg. Settar hafa verið sérstakar reglur til að auðvelda lögreglu vonlausa baráttuna,og hafa reglurnar aðallega þær afleiðingar að frelsi saklauss fólks er skert. Dómar í fíkniefnamálum hafa einnig verið þyngdir og hafa Íslendingar ekki farið varhluta af því, en ástandið er orðið þannig að það er mun minna mál að ganga í skrokk á manni svo stórsjái á honum en að neyta fíkniefna. Þó má hverjum manni vera ljóst að sá sem neytir fíkniefnanna er ekki að skaða aðra öfugt við ofbeldismanninn. Öfgarnar í málflutningi þeirra sem lengst ganga eru jafnvel slíkar að þeir telja refsirammann ekki nægan og að breyta þurfi lögum til að geta fangelsað fíkniefnasala í 12 ár en ekki „aðeins“ 10. Hvenær átta menn sig á að fórnirnar sem menn færa í stríðinu gegn fíkniefnunum eru ónauðsynlegar og auka aðeins á þær slæmu afleiðingar sem neysla efnanna hefur í för með sér?