Helgarsprokið 11. mars 2001

70. tbl. 5. árg.

Þegar umræðan um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði stóð sem hæst sumarið 1998 var rætt við Bryndísi Hlöðversdóttur þingmann Alþýðubandalags í fréttum um frumvarp þess efnis. Þar benti Bryndís réttilega á að umræðan um frumvarpið snerist alltof mikið um fyrirtækið Íslenska erfðagreiningu. Aðalatriðið væri hins vegar að þær upplýsingar sem setja ætti í gagnagrunninn væru komnar frá einstaklingum sem farið hefðu með persónuleg mál sín til lækna og annarra starfsmanna heilbrigðiskerfisins og gert ráð fyrir að þau færu ekki lengra. Bryndís hafði greinilega áhyggjur af því að vilji einstaklingsins yrði fyrir borð borinn. En til að tryggja hagsmuni einstaklingsins vildi Bryndís að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið!

„Fæst venjulegt fólk vill þurfa að setja sig inn í kosti og galla allra mála sem hægt er að deila um á þingi og í sveitarstjórnum, en fólk vill frekar velja fulltrúa sína til að sjá um þá hluti. Og þessa fulltrúa velur flest fólk eftir grundvallaratriðum í lífsskoðun en ekki eftir því hvernig vindar blása í tilteknum froðumálum…“

Með þessu litla dæmi er ef til vill komið að helsta gallanum á málflutningi þeirra sem telja þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök mál töfralausn. Þeir gefa nefnilega í skyn að með þjóðaratkvæðagreiðslum nái einstaklingurinn meiru fram en í gegnum fulltrúalýðræðið sem við búum við í dag. Þetta er misskilningur. Þegar mál eru færð úr höndum einstaklinga og fyrirtækja þeirra á markaði inn á stjórnmálasviðið er skaðinn þegar orðinn. Valdið hefur verið fært frá einstaklingunum til illa- eða óskilgreinds meiri hluta. Neytendavaldi er breytt í meirihlutaræði. Þjóðaratkvæðagreiðsla breytir engu þar um. Þeir sem eru andsnúnir ákvörðunum meirihlutans eru engu bættari með að meirihluti þeirra sem mættu á kjörstað í þjóðaratkvæðagreiðslu hafi tekið ákvörðunina en ekki meirihluti á þingi. Það má raunar refsa meirihluta á þingi í næstu þingkosningum með því að kjósa eitthvað annað en meiri hluta þess hluta þjóðarinnar sem tekur þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu verður ekki refsað enda veit engin hver hann er og engin leið er til að refsa honum eins og stjórnmálamönnum er refsað í almennum kosningum.

Helstu stuðningsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu virðast svonefndir popúlistar eða upphlaupsmenn og lýðskrumarar sem eiga erfitt með að ná almennum stuðningi. Þess vegna vilja þeir fremur efna til átaka og kosninga um einstök mál en almenna stefnu. Þess vegna vilja þeir fremur þjóðaratkvæðagreiðslur en fulltrúalýðræði. Fulltrúalýðræðið býður vissulega upp á misnotkun. Öflugir og oft litlir hagsmunahópar beita áhrifum sínum í einstökum málum og hafa sitt fram á afmörkuðu sviði. Úr þessum galla verður þó helst bætt með því að færa verkefni frá stjórnmálamönnum út á markaðinn til einstaklinganna. Þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök mál, ekki síst ef þær verða að hversdagslegum vana og dregur úr þátttöku, bjóða einnig upp á að þeir hópar sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta beiti sér af nægu afli til að hafa sitt fram. Hvað segir þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem 25% greiða atkvæði með og 26% á móti? Eru menn einhverju nær um það fráleita hugtak sem „vilji þjóðarinnar“ er? Því má heldur ekki gleyma að það verða stjórnmálamenn sem taka ákvörðun um hvaða mál skuli bera upp til almennrar atkvæðagreiðslu og hvernig spurningar verða orðaðar. Einfaldar spurningar um flókin mál má auðveldlega túlka á ýmsan hátt. Það má líka kjósa aftur ef ekki fæst rétt niðurstaða. Hver segir til dæmis að ekki verði kosið aftur á næstu 15 árum um framtíð flugvallarins ef niðurstaðan verður ekki hugnanleg valdhöfum í framtíðinni? Það er hægur vandi að réttlæta aðrar kosningu til dæmis að 5 árum liðnum þegar aðstæður verða breyttar og aðrir kjósendur komnir til sögunnar. Eiga þeir ekki frekar að taka þessa ákvörðun en þeir sem nú hafa kosningarétt?

Þeir sem mest tala fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum eða „beinu lýðræði“ eins og þeir nefna það fara oft út í pópúlisma eins og að hinir treysti ekki venjulegu fólki til að taka ákvarðanir. Þeir gleyma hins vegar að hinn almenni maður situr ekki á kaffihúsum daginn út og inn við að spá og spekúlera í hlutina til að reyna að koma sér upp kjaftaviti á hvaða umræðuefni sem er. Fæst venjulegt fólk vill þurfa að setja sig inn í kosti og galla allra mála sem hægt er að deila um á þingi og í sveitarstjórnum, en fólk vill frekar velja fulltrúa sína til að sjá um þá hluti. Og þessa fulltrúa velur flest fólk eftir grundvallaratriðum í lífsskoðun en ekki eftir því hvernig vindar blása í tilteknum froðumálum sem hæst kann að vera látið með hverju sinni. Ef fólk ætti reglulega að greiða atkvæði um alls kyns mál – t.d. um leið og það keypti sér lottómiða – þá yrði fólk, sem ekki hefði tök á að leggjast yfir öll deilumál, að byggja skoðun sína á skyndiskoðun á þeim sjónarmiðum sem hæst hefði borið í umræðunni síðustu dagana fyrir kosningar. Og hverjir ætli hafi nú mestu færin á að hafa áhrif á þá umræðu? Það eru upphlaupapólitíkusar, krossferðaritstjórar og dálkahöfundar blaðanna. Og hverjir ætli séu nú áköfustu talsmenn reglulegra atkvæðagreiðslna um alls kyns mál?

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að benda á að jafnvel þó viðfangsefnið virðist einfalt við fyrstu sýn, t.d. að taka þarf ákvörðun um hvort flugvöllur eigi að vera í miðri Reykjavík eða ekki, þá er hægt að klúðra kosningunni þannig – sé viljinn nægur – að enginn viti um hvað sé kosið, að menn viti ekki hvernig þeir eigi að greiða atkvæði jafnvel þó þeir hafi ákveðna skoðun og að þeir sem ráði hafi sagt að jafnvel þó kosningin fari þannig að borgarbúar vilji völlinn kyrran, þá verði honum breytt. Svo bætist við að nú er verið að fara að kjósa um eitthvað sem ekkert er að fara að gerast, bara til að fólk átti sig ekki á að núverandi borgarstjóri hafði það ekki með í ráðum þegar raunveruleg ákvörðun var tekin fyrir skömmu síðan. Þetta sýnir að alltaf er hætta á að óprúttnir og ósvífnir stjórnmálamenn noti svona kosningu sjálfum sér til framdráttar og til að fela afglöp sín eða getuleysi. Í þessu tilviki er þó kosningin fyrst og fremst til marks um að mál sem flestum var sama um var blásið upp með því að efna til tugmilljóna kynningar og kosningar um það.

Þjóðaratkvæðagreiðsla getur vissulega komið til greina í stærstu málum. Það er hins vegar misskilningur að með slíkum atkvæðagreiðslum í tíma og ótíma um hvers kyns mál sé dregið úr áhrifum óviðkomandi (stjórnmála)manna á líf okkar.