Það er ekkert yfirvinnubann hjá yfirdýralækni frekar en fíkniefnalögreglunni og hyggst yfirdýralæknir nýta sér það með því að verja strendur landsins fyrir nýjustu vágestunum – vorboðanum ljúfa og fleiri farfuglum. Yfirdýralæknir hefur sótt um leyfi til að skjóta nokkrar álftir við landamæri lýðveldisins Íslands til að kanna hvort farfuglar beri gin- og klaufaveikismit. Blessaðir vorboðarnir fá ekki að njóta vafans eins og afgangurinn af náttúrunni heldur er skotið fyrst og spurt síðar. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvað gerist ef grunur yfirdýralæknis reynist á rökum reystum og vorboðinn ljúfi er pestargemlingur. Það er hætt við að allir yfirvinnukvótar lögreglu lýðveldisins dygðu vart til að verja landamærin.
„Eldlínan“ nefnist vikulegur umræðuþáttur á Stöð 2 og mun þar stefnt að því að fjalla um stjórnmál með ýtarlegri hætti en tíðkast í venjulegum fréttaþáttum. Í gærkvöldi var þar efnt til umræðna um borgarmál og komu í þáttinn tveir merkir borgarfulltrúar, Hrannar B. Arnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. Miklum tíma var varið í að ræða það hvort Björn Bjarnason yrði næsta borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins og hafði Hrannar miklar skoðanir á öllu sem tengist þeim vangaveltum. Sérstaklega þótti Hrannari alvarlegt að með því að Björn hefði viðurkennt að þessi hugmynd hefði verið færð í tal við hann, hefði hann „gefið út veiðileyfi“ á núverandi forystu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Ekki leyndi sér að Hrannari þótti þetta hinn versti ódrengskapur og hið alvarlegasta mál.
Já, Hrannari þykir sem „veiðileyfi“ hafi verið gefið út. Og þó hefur ekki annað gerst en það að einhver hefur minnst á þessi mál við Björn Bjarnason og menntamálaráðherrann hefur ekki þrætt fyrir það. Það er nú veiðileyfið sem gefið hefur verið út. En ef það er rýtingsstunga og stórfelld svik, hvað á þá að segja um þann mann fyrir nokkrum árum stóð skyndilega fyrir sérstakri skoðanakönnun um það hvort rétt væri að leggja niður þá vinstri flokka sem þá störfuðu í borgarstjórn Reykjavíkur en mynda úr reytum þeirra nýtt framboð? Sá frómi stjórnmálamaður, Hrannar B. Arnarsson, hefur árum saman séð ástæðu til að stæra sig af því að hafa síðsumars árið 1993 keypt slíka spurningu inn í skoðanakönnun sem stóð fyrir dyrum meðal borgarbúa. Hrannar, sem nú telur það sérstaka veiðileyfaútgáfu að maður viðurkenni að hafa verið spurður um framboð, hann lét sig ekki muna um að greiða sjálfur fyrir það hugðarefni að fá fram umræðu um útrýmingu borgarstjórnarflokka vinstri manna í Reykjavík. Hann taldi þetta að minnsta kosti svo brýnt að á sama tíma lét hann ýmis veigaminni útgjöld, svo sem skattgreiðslur, mæta afgangi.