Fimmtudagur 1. mars 2001

60. tbl. 5. árg.

Þeir vilja fólkið úr bílunum í strætóana, þeir vilja fín snobbfyrirtæki en ekki gamaldags alvörufyrirtæki, þeir vilja að fólk versli í mörgum litlum búðum en ekki færri og stærri verslunum, þeir vilja að menn búi í miðbænum en ekki í úthverfunum og þessi miðbær á sko að vera eftir þeirra höfði: Þar má ekki heyrast í flugvél, sjást erlent vörumerki, finnast lykt af fiski eða nokkurt annað merki um að einhvers staðar sé stundaður iðnaður, framleiðsla, vinnsla eða nokkuð það sem kynni að raska ró hins yfirvegaða menningarmanns – sem vel að merkja er að leggja talsvert á sig með því að búa hér innan um plebbana sem aldrei nenna að horfa á langdregnar kvikmyndir og kunna varla orð í frönsku.

Vef-Þjóðviljinn leyfir sér að benda á að með baráttu sinni fyrir því að fá „flugvöllinn burt“ hafa þessir miðbæjarvitar gert sitt til að festa flugvöllinn í sessi. Samkvæmt skoðanakönnun PricewaterhouseCoopers hefur hópur þeirra sem vilja ekki hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni minnkað úr 35% í október í tæp 26% nú. Þetta er töluverður árangur hjá ekki stærri hópi kaffihúsaprinsa á ekki lengri tíma.

Í Kaliforníu eru bílaframleiðendur skikkaðir með lögum til að setja ákveðinn fjölda rafmagnsbíla á markað. Þessar reglur voru settar til að draga úr útblæstri. Bílaframleiðandinn General Motors hefur stefnt yfirvöldum fyrir dóm vegna þessara reglna og nefnir meðal annars máli sínu til stuðnings að þessi aðferð til að draga úr útblæstri sé 150 falt dýrari en ýmsar aðrar. GM bendir einnig á að til að fylla kvótann fyrir rafmagnsbíla muni bílaframleiðendur setja hálfgerða golfvallarbíla á markað en þeir séu hættulegir í umferðinni innan um venjulega bíla. Deilt hefur verið um þessa kvöð í Kaliforníu í rúman áratug en fyrir áratug var talið að rafmagnsbílar yrðu raunhæfur kostur. Enn sem komið er eru þeir þó miklu dýrari og aflminni en bílar með sprengihreyfil og komast yfirleitt stutt á hleðslunni. Eins og er hefur GM meiri trú á bílum með blöndu af sprengihreyfli og rafmagnsvél eða eldsneytissellum.

Í Bandaríkjunum eru einnig í gildi reglur um eldsneytiseyðslu bíla (CAFE). Ekki er þó ljóst hvort slíkar reglur draga úr útblæstri. Reglur af þessu tagi hækka verð nýrra stórra bíla sem þýðir einfaldlega að fólk heldur lengur í gömlu stóru bílana en þeir menga meira en nýir. Vegna CAFE þurfa bílaframleiðendur einnig að framleiða veigaminni bíla en neytendur myndu að öllu jöfnu vilja. Þetta dregur úr öryggi farþega. Nýleg könnun bendir til þess að í auknar kröfur um minni eyðslu geti kostað allt að 7700 manns lífið á ári fyrir hverja aukamílu sem menn komast á galloni af eldsneyti.