Miðvikudagur 28. febrúar 2001

59. tbl. 5. árg.

Fyrir rúmum þremur árum sagði hér í Vef-Þjóðviljanum: „Svo virðist, sem tónskáld og flytjendur tónlistar hafi náð að tryggja rétt sinn afar vel. Hugsanlega of vel. Lagaheimildir þeirra til innheimtu eru afar rúmar og gjaldskrár þeirra, sem staðfestar eru af menntamálaráðherra, byggja einhliða á þeirra hagsmunum og önnur sjónarmið virðast ekki fá að komast að. Það er því ástæða að endurskoða lög og reglur á þessu sviði, þannig að eðlilegra jafnvægi skapist milli rétthafa höfundarréttarins og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta.“

Á Netinu er miklu efni dreift ókeypis þ.e. framleiðendur þess sjá sér hag í því menn geti nýtt sér efnið án endurgjalds. Þetta á til dæmis við um netmiðla eins og Vísi, mbl.is og ft.com og þá síðu sem hér er lesin. Vafalaust gætu þessir netmiðlar tekið sig saman, ráðið sér lagaprófessor í lobbýisma og fengið Alþingi til að samþykkja einróma að vart sé sanngjarnt að menn geti nýtt sér netmiðla frítt. Því sé rétt að leggja gjald á símalínur, netþjóna, módem, tölvur og skrifborðsstóla en það er svona hér um bil það sem þarf til að nýta sér þjónustu netmiðlanna. Jafnvel kæmi til greina, ef samtök netmiðla væru álíka innréttuð og STEF, að hækka fasteignagjald í þágu netmiðlanna en menn eru yfirleitt staddir í fasteignum þegar þeir nýta sér netmiðlana.

Samtökin STEF beita fyrir sig hugtökunum réttlæti og sanngirni. Þau segja félagsmenn sína verða fyrir barðinu á þjófum sem fjölfaldi verk félagsmanna í heimildarleysi. Til að bregðast við þessu hafa þau hins vegar fengið því framgengt að heyrnarlaus maður sem kaupir sér tóman geisladisk er skattlagður á þágu STEFs, fyrirtæki sem vista eigin gögn á geisladiskum eru skattlögð í þágu STEFs, skólafólk sem kaupir geisladisk undir ritgerðir er skattlagt í þágu STEFs og svo mætti lengi telja. Svo virðist sem STEF líti þannig á að þeir sem verði fyrir þjófnaði eigi að fá umboð til að skattleggja alla aðra hvort sem þeir eru sekir eða saklausir. Hér er því ekki aðeins verið að snúa við sönnunarbyrði eins og stundum er krafist, heldur eru allir sakfelldir. Í því virðast sumir telja að felist eðlilegar sárabætur.