Þriðjudagur 27. febrúar 2001

58. tbl. 5. árg.

Bekkjastærð var til umfjöllunar í grein eftir Virginiu Postrel í The New York Times á dögunum. Í greininni vísar Postrel til rannsóknar Edward Lazears, hagfræðings við Stanford og Hoover stofnunina, sem kannað hefur áhrif bekkjarstærðar á námsárangur. Rannsókn af þessu tagi er athyglisverð fyrir íslenskt menntakerfi, því á Íslandi hefur því mjög verið haldið fram að færri nemendur í bekkjardeild séu nauðsynleg forsenda bætts námsárangurs. Ekki hefur öllum sýnst ástæða til að horfa í kostnaðinn þegar bekkjastærð er annars vegar. Þegar árangur milli landa er borinn saman kemur í ljós að ekki er samhengi milli bekkjastærða og námsárangurs og nægir þar að nefna að nemendur í fjölmennum bekkjardeildum í Suð-Austur Asíu hafa komið afar vel út í samanburði við jafnaldra sína í löndum þar sem færri nemendur eru um hvern kennara.

Rannsókn Lazears er ágæt viðbót við þann samanburð milli landa sem fram hefur komið. Lazears býr til líkan sem túlka á samspil bekkjarstærðar, hegðunar nemenda, lærdóms og kostnaðar við kennara. Niðurstaða Lazears er að almenn fækkun nemenda í bekkjardeildum sé sóun á fé og að betra sé að nýta féð til annars ef bæta eigi menntun. Undantekning sé ef nemendur eigi við sérstök hegðunarvandamál að stríða eða hafi aðrar sérstakar þarfir, þá skipti stærð bekkjar máli. Og eitt af meginatriðunum í niðurstöðu Lazears er að þarfir nemenda séu ólíkar og að menntun verði almennt ekki bætt með töfralausn á borð við fækkun í bekkjardeildum.

Það er með skóla eins og önnur fyrirtæki sem bjóða þjónustu, að ekki fer vel á því að allir bjóði sömu þjónustuna – eina ríkisþjónustu. Þetta er ein af ástæðum þess að heppilegra er að menntakerfið sé einkarekið og að þar sé margt í boði en að ríki eða sveitarfélög reki alla skóla og reyni að steypa alla í sama mót.

Visir.is er metnaðarfullur fjölmiðill – og þjóðlegur. Því hefur hann brugðið á það ráð að styðjast ekki endilega við erlendar fréttir til að segja frá því sem erlendis gerist, heldur umorða fréttir á íslensku af  mbl.is. Þetta er auðvitað einnig snjöll sparnaðarleið. Í gær var sagt frá því í Miami Herald að við endurtalningu þess dagblaðs á atkvæðum úr forsetakosningunni frægu í Flórída hafi Al Gore aðeins bætt við sig 49 atkvæðum og George W. Bush hefði því unnið þótt Gore hefði fengið allar þær endurtalningar sem hann vildi. En mbl.is gerði þá villu að tala um 49% í stað 49 atkvæði, og svo sérkennilega vildi til að visir.is gerði nákvæmlega sömu villu í sinni frétt rúmum hálfum öðrum tíma síðar. Fyrir utan sparnaðinn nær visir.is með þessu móti ótvíræðum yfirburðum á netfréttamarkaðnum hér á landi, því menn geta bæði lesið fréttir mbl.is og visir.is á einum og sama miðlinum.