Laugardagur 3. mars 2001

62. tbl. 5. árg.

Það hjálpaði okkur rosalega að eiga ekki fyrir mat eftir að hafa greitt alla skattana.
Það hjálpaði okkur rosalega að eiga ekki fyrir mat eftir að hafa greitt alla skattana.

Á islog.is er sagt frá því að greiðsla fyrirtækis á líkamsræktarkorti starfsmanns verði ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður fyrr en fyrirtækið gefur hana upp sem tekjur til starfsmannsins. Þessi túlkun sé föst í sessi hjá skattyfirvöldum. Önnur áhugaverð spurning vaknar þegar það liggur fyrir að fyrirtæki geta ekki talið líkamsræktarkostnað starfsmanns sem kostnað nema gefa hann upp sem tekjur starfsmanns: Hvað gerist þegar verkalýðsfélög niðurgreiða líkamsrækt félagsmanna sinna? Verða þau ekki gefa styrkinn upp sem tekjur á félagsmennina? Það væri afar áhugavert ef svo væri þar sem félagsmenn verkalýðsfélaga greiða tekjuskatt af greiðslum sínum í félögin. Ef þeir þyrftu svo að greiða skatt af styrkjum úr sjóðum verkalýðsfélaganna stæði lítið eftir af upphaflegum tekjum. Til dæmis þarf maður að vinna sér inn 16.400 krónur til að eiga fyrir 10.000 króna greiðslu félagsgjalds til verkalýðsfélags. Ef hann fær þessar 10.000 krónur frá félaginu aftur sem niðurgreiðslu á líkamsræktarkorti og þarf að greiða skatt af þeim standa rúmar 6.000 krónur eftir. Einstaklingurinn hefur þá greitt rúmlega 63% af 16.400 krónunum í tekjuskatt. Ef þetta er raunin hefur verkalýðshreyfingin vissulega náð einstæðum árangri í baráttu fyrir hagmunum félagsmanna sinna um leið og hún hefur framfylgt því markmiði sínu að skattar hér landi verði með þeim hæstu í heiminum.

Við þetta má svo bæta að ef félagsmaðurinn greiðir hátekjuskatt (þ.e. hefur yfir 275 þúsund krónur á mánuði í tekjur) greiðir hann samtals rúmlega 70% tekjuskatt eftir að tekjur hans hafa rúllað í gegnum verkalýðsfélagið.