Fimmtudagur 1. febrúar 2001

32. tbl. 5. árg.

Erfðabreytt matvæli eru á svarta lista ýmissa umhverfisverndarsamtaka. Krafa þeirra er að banna erfðabreytt matvæli. Ólíklegt má teljast að sú krafa þeirra njóti stuðnings enda eru erfðabreytt matvæli nú þegar orðin lífsbjörg milljóna manna. Umhverfisverndarsinnar eru þó samkvæmir sjálfum sér að þessu sinni enda er fólk eitt helsta vandamál jarðar að þeirra mati, ekki síst fólksfjölgun, þ.e. nýir einstaklingar. Til vara er því krafa umhverfisverndarsinna sú að öll erfðabreytt matvæli verði merkt sérstaklega. Þetta kann að hljóma skynsamlega en er það ekki. Er ekki rétt að þeir sem hafa sérþarfir eins og þá að matur megi ekki innihalda erfðabreytt hráefni beri sjálfir kostnaðinn? Ef setja á reglur um merkingu matvæla vegna erfðabreytinga er eðlilegt að sérvitringarnir beri kostnaðinn af sérvisku sinni og það verði skylda að merkja mat sérstaklega sem ekki hefur notið erfðavísindanna. Þannig gæti landlæknisembættið látið prenta límmiða sem á stæði: Með neyslu á mat sem ekki hefur verið bættur með erfðatækni ferðu á mis við aukið næringargildi erfðabreyttra matvæla. Vef-Þjóðviljinn er þó vitaskuld ekki að mæla með slíkri skyldumerkingu. Hann telur augljóst að rétta leiðin í þessu efni sé að láta markaðsöflin stýra þessu í heppilegan farveg. Ef nægilega margir vilja matvæli sem ekki eru erfðabreytt hlýtur að vera til markaður fyrir sérmerktar vörur af því tagi. Þeir bera þá aukakostnaðinn af því og aðrir fá að næra sig í friði.

Vef-Þjóðviljinn hefur stundum imprað á því að stór hópur manna hafi af því atvinnu að benda fólki á vandamál sem fólk hafði ekki hugmynd um að væri vandamál. Eitt vandamálið sem hefur orðið skýrsluhöfundum og fleiri spekingum matarhola er „umferðaröngþveitið“, „umferðarþunginn“ og „einkabílisminn“ í Reykjavík. Hafa menn jafnvel lagt til, og fengið greitt fyrir það úr sameiginlegum sjóðum, að grafin verði lestargöng um borgina þvera og endilanga. „Ef komið yrði á fót neðanjarðarlestarkerfi sem næði til alls höfuðborgarsvæðisins og fólki gæfist kostur á að komast frá miðbæ Reykjavíkur til Hafnarfjarðar í hlýju og notalegu umhverfi á 7 mínútum myndi staðan breytast til batnaðar“, var haft eftir einum spekingnum á Vísi fyrir helgina. Látum það vera hve óraunhæf þessi hugmynd er vegna kostnaðar. Hvað ætli tæki að meðaltali langan tíma að komast að rörinu og ofaní það og svo upp úr því aftur og að áfangastað? Ætli væri þægilegt að stökkva upp úr rörinu á leiðinni og sækja börnin í leikskólann, fara ofaní aftur og svo upp úr á ný við matvöruverslun? Og ætli gangan að og frá rörinu sé ætíð hlý og notaleg? Það yrði býsna langt frá rörinu að útidyrum flests fólks. Þrátt fyrir allan „einkabílismann“ og „umferðarþungann“ er það staðreynd að það tekur innan við 15 mínútur að komast frá miðbæ Reykjavíkur til Hafnarfjarðar á bíl. Það er sama á hvaða tíma dagsins menn eru á ferð. Lestarferðin með öllu mundi taka lengri tíma.Umferðaröngþveiti eru nefnilega ekki til í Reykjavík nema í huga þeirra sem eru í leit að vandamálum. Mestu tafir á bílaumferð á Íslandi verða á þjóðvegum utan borgarinnar vegna slysa. Jafnvel á helstu álagstímum í elstu hverfum borgarinnar gengur umferð greiðlega fyrir sig. Auðvitað gætu menn stundum verið 10 mínútur en ekki 12 vestan úr bæ og upp í Breiðholt ef engir aðrir þyrftu að nota göturnar. Kemur það einhverjum sem býr í borg á óvart?