Miðvikudagur 31. janúar 2001

31. tbl. 5. árg.

„Evrópusambandið ber sig gjarnan saman við Bandaríkin. Á aðra milljón starfa hefur að jafnaði skapast á ári í Bandaríkjunum síðustu áratugina í einkageiranum. Í Evrópusambandinu hefur engin aukning orðið, aftur á móti hefur störfum fjölgað í opinbera geiranum. Efnahagsþróunin í Evrópusambandinu hefur verið slakari en í Bandaríkjunum meira og minna síðustu tvo áratugi og miklu slakari síðasta áratuginn. Athuganir sýna að stofnun nýrra fyrirtækja er aðeins helmingur og sum staðar fjórðungur af því sem er vestanhafs. Atvinnuleysið í Evrópusambandinu er mikið, í kringum 10% (og þá ekki taldir allir sem eru vinnufærir, en eru á endurmenntunarnámskeiðum eða settir á bætur í fullu fjöri). Af þessum stóra hópi er um helmingur sem býr við langtímaatvinnuleysi, hefur jafnvel ekki dýft hendi í kalt vatn alla ævi.“ Svo sagði Friðrik Daníelsson efnaverkfræðingur frá í kjallaragrein í DV í síðustu viku sem bar yfirskriftina „Evrópudoðinn“.

Helstu ástæður doðans í efnahagsmálum Evrópu rekur Friðrik svo í grein sinni: „Helstu ástæðurnar fyrir doðanum er tröllvaxið skrifræðisbákn og skattheimta. Flóð tilskipanna og reglugerða frá Brussel er orðið svo mikið, að þrautvanir undirsátar, t.d. í Þýskalandi hafa aldrei getað ímyndað sér annað eins. Milljónir af blaðsíðum og stöðugt flæðir meira. Stjórnvöld í aðildarríkjunum hafa misst mikið af valdinu yfir eigin málum og þurfa að hlíta tilskipunum sem oft eru skaðlegar fyrir þau.“ Þetta eru svipuð sjónarmið og Friðrik kynnti í bók sinni 2000 árum eftir Vínlandsfund – Lifa Íslendingar annað árþúsund? sem kom út fyrir jólin og Vef-Þjóðviljinn vék lítillega að á dögunum.

Friðrik segir að Íslendingar hafi fengið fyrsta flokks viðskiptasamning við Evrópusambandið með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES. En hægt og bítandi sé að koma í ljós að með í farteskinu sé laumufarþegi, tilgangslausar tilskipanir og reglugerðir sem séu fjarri íslenskum aðstæðum og séu þegar farnar að hamla þróun hérlendis. Þetta leiðir hugann að því hvort það sé virkilega svo að með samningnum um EES hafi Íslendingar skuldbundið sig til að taka upp reglur sem virðast ekki koma frelsi í viðskiptum, eða fjórfrelsinu svo notað sé tungutak Evrópusambandsins, á nokkurn hátt við. Nægir þar að nefna nýlegt dæmi um evrópskar reglur sem taka á áramótabrennum. Hvað kemur halli á áramótabrennum fjórfrelsinu svonefnda við?