Föstudagur 2. febrúar 2001

33. tbl. 5. árg.

Nú hefur franskur háskólakennari komist að því að hinar vinsælu bækur um ævintýri Harry Potter, séu lítið annað en dulbúinn áróður fyrir gildum smáborgarastéttarinnar. Vopnaður lærðum bókmenntakenningum og marxisma segir hann augljóst að þrátt fyrir að Harry litli sé með úfið hár og gleraugu sé hann síður en svo fulltrúi „menntamanna“. Og þá er ekki öll sagan sögð. Að mati Bruno, sem er kennari við háskólann í Dijon og hefur birt þessar kenningar sínar í hinu mjög svo vinstrisinnaða blaði Libération, er Harry einnig kvenhatari, enda er það í samræmi við „fræðin“.

Aðdáendur bókanna vita raunar ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Bókin hefur selst í yfir milljón eintökum í Frakklandi og jafnt börn sem fullorðnir sjá þá einu „symbólík“ í bókunum að þar eigist við góð og ill öfl, -sem er reyndar þekkt stef í bókmenntum heimsins. Hermione, besta vinkona Harry er afburðanemandi og síður en svo niðurlægð af félögum sínum og taka má fram að höfundur bókanna, J.K. Rawling, er kona.

En Bruno er ekki af baki dottinn. Hann bendir t.a.m. á að átök milli hinna fjögurra heimavista í bókunum sé tákn fyrir stéttaátök þjóðfélagsins. Enskur blaðamaður, John Lichfield, hefur reyndar bent á að þrátt fyrir að Bruno sjái alls staðar tákn sem falla að marxískri greiningu um stéttaátök þá sé þar hvergi að finna greiningu á þeim hræðilegu verum sem kallast Dementors. Þeim er lýst sem andlitslausum verum hverrar nálægð ein og sér nægir til að eyða allri gleði. Þarna er kannski mergurinn málsins. Bruno hefur nefnilega tekist ágætlega upp í því sem ávallt hefur verið eitt aðalsmerki sósialista um allan heim, þ.e. að gera allt nógu fjandi leiðinlegt.