Föstudagur 26. janúar 2001

26. tbl. 5. árg.

Sá sem nefndur var „mesti vindhani íslenskra stjórnmála“ fékk kveðju frá Rögnu Ívarsdóttur framsóknarmanni í kjallara DV í gær. Ragna rifjar upp að hann hafi sem stúdentaleiðtogi orgað niður í þingsali að aldrei mætti leggja á skólagjöld en síðar tekið þátt í því sem ráðherra að leggja á skólagjöld. Í leiðtogatíð sinni fyrir stúdenta hafi hann einnig staðið fyrir samkomulagi við menntamálaráðherra um nýtt fyrirkomulag námslána sem tengdi lánin og endurgreiðslu þeirra við tekjur maka. Nú lýsi hann yfir andstöðu við tekjutengingar. Hann hafi farið mikinn í umræðum um Eyjabakka og heimtað lögformlegt umhverfismat. Hann hafi hins vegar í umhverfisráðherratíð sinni gefið út leyfi til lagningu Fljótsdalslínu 1 hinn 20. apríl 1993. Hefði hann beðið til 1. maí sama ár hefði línan lögum samkvæmt þurft umhverfismat. Ragna bendir einnig á að árið 1993 hafi verið sett lög sem kváðu á um tengingu bóta öryrkja við tekjur maka. Hann hafi verið ráðherra í ríkisstjórninni sem þá sat. Nú fordæmi hann hins vegar tekjutenginguna.

Við upprifjun Rögnu má svo bæta að maðurinn hefur verið félagi í a.m.k. þremur stjórnmálaflokkum og ritstýrt tveimur flokksmálgögnum, Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu. Þá er ótalinn hefðbundinn vingulsháttur hans í afstöðu til varnarliðsins og aðildarinnar að NATO, til einkavæðingar og viðskiptafrelsis. Ekki myndi heldur saka að skoða umfjöllun Vef-Þjóðviljans um vindhanann frá því á síðasta ári.