Fimmtudagur 25. janúar 2001

25. tbl. 5. árg.

Í svonefndri Staðardagskrá 21 fyrir Reykjavíkurborg eru ýmsar tillögur um hvernig bæta megi ástand umhverfismála í Reykjavík á 21. öldinni. Skýrslan um Staðardagskrá 21 er þó aðallega sparðatíningur um framkvæmdir fyrr á árum. Þannig er þess getið að í borginni sé húshitun með jarðvarma, í borginni sé grasagarður, vinnuskóli fyrir unglinga og að mótuð hafi verið jafnréttisáætlun árið 1991 og jafnréttisfulltrúi hafi við það tækifæri tekið til starfa. Þá er tekið fram að Reykjavík hafi fengið kaupstaðarréttindi árið 1786 og orðið sérstakt lögsagnarumdæmi með skipun bæjarfógeta árið 1803. Allt er þetta án efa nauðsynlegur hluti þeirrar hugmyndafræði sem nefnd er „sjálfbær þróun“ og skýrslan byggir á.

Þær hugmyndir um framtíðina sem nefndar eru í skýrslunni virðast flestar vera gamlar tuggur. Þannig er tönnlast á því að efla þurfi „almenningssamgöngur á kostnað einkabílsins“. Þetta hefur heyrst áður en eins og menn vita fylgir ekki hugur máli hjá borgarfulltrúum meirihlutans. Helgi Pétursson borgarfulltrúi sem fór fyrir bíllausa deginum síðasta haust fór allra ferða sinna á einkabíl á sjálfan bíllausa daginn. Þá er það staðreynd að almenningssamgöngur í Reykjavík eru ekki notaðar af almenningi. Almenningssamgöngur eru þær samgöngur sem pólitíkusar vilja að almenningur noti en nota ekki sjálfir. Hinn almenni maður velur hins vegar sköttum hlaðinn einkabílinn fremur en niðurgreiddan strætóinn. Nýting strætisvagnanna er svo léleg að minni útblástursmengun er frá farþega einkabílsins en strætisvagnafarþeganum. Það eru því hreinustu öfugmæli að tala um almenningssamgöngur sem vistvænar samgöngur eins og gert er í skýrslunni um Staðardagskrá 21.

Í skýrslunni er lagt til að auka hlut endurnýtingar á sorpi. Að sjálfsögðu er ekki reynt að meta kostnaðinn af þessari endurvinnslu enda er kostnaður algjört aukaatriði þegar trúarbrögð eins og endurvinnsla eru annars vegar. Um endurvinnslu eru raunar komnar tilskipanir frá Evrópusambandinu sem kveða á um að draga beri úr urðun lífræns úrgangs. Lífrænn úrgangur er hráefnið í metangasframleiðslu á urðunarstöðum. SORPA hefur stofnað fyrirtæki til að safna metangasinu. Nú þegar aka nokkrir bílar knúnir metangasi frá ruslahaugunum á Álfsnesi um borgina. Ekki er gott að sjá hvernig framtíð metanfyrirtækisins og aukinnar endurvinnslu á lífrænum úrgangi fer saman. SORPA hefur jafnvel hafið jarðgerð til að forða lífrænum úrgangi frá urðun og þar með að hann verði að metangasi.

Staðardagskrá 21 verður vafalaust nefnd í næstu kosningabaráttu í Reykjavík sem helsta afrek R-listans í umhverfismálum. Það fer vel á því.