Miðvikudagur 24. janúar 2001

24. tbl. 5. árg.

Kvikmyndagerðarmenn gefa skattgreiðendum langt nef.
Kvikmyndagerðarmenn gefa skattgreiðendum langt nef.

Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndaframleiðandi Íslands, átti samtal við þáttarstjórnanda Skotsilfurs um helgina. Skotsilfur er þáttur á Skjá einum og fjallar um fjármál og atvinnu- og efnahagslíf, og hafði þáttarstjórnandinn hug á að fræðast ögn um kvikmyndaframleiðslu á Íslandi og hvernig hún standi frá viðskiptalegu sjónarmiði. Skemmst er frá því að segja að Friðrik Þór fór þegar í upphafi fögrum orðum um umhverfi kvikmyndaframleiðenda hér á landi og taldi aðstæður allar hinar bestu. Náðst hefðu góðir „samningar“ um drjúgar greiðslur úr Kvikmyndasjóði (249,9 milljónir króna í ár) og þar að auki fengist 12% endurgreiðsla frá ríkinu vegna kvikmyndagerðar hér á landi. Þessi „endurgreiðsla“ ætti raunar frekar að heita niðurgreiðsla, því hún felur í sér að ríkið niðurgreiðir kvikmyndagerð um þessi 12%.

Nú, viðtalið gekk sinn vanagang, en í lokin vildi spyrillinn fá fram aftur hvernig Friðrik Þór metur starfsumhverfi fyrirtækis síns. Kvikmyndaframleiðandinn endurtók þá fyrri orð og mátti ljóst vera að maðurinn er alsæll með starfsumhverfið. En spyrillinn sýndi að það er ekki aðeins í umdeildum sakamálum sem knúnar eru fram játningar. Með því að sauma enn að kvikmyndaframleiðandanum og spyrja hvort ekkert mætti bæta tókst að fá hann til að segja að það mætti jú í framtíðinni – ef núverandi endurgreiðslur sönnuðu sig – auka þær með hækkun endurgreiðsluhlutfallsins.

Niðurstaða þáttarins liggur þá fyrir: Friðrik Þór Friðriksson verður enn sáttari ef skattgreiðendur eru látnir greiða honum enn meira fé. Hann á líklega um 280.000 skoðanabræður á landinu – þeir mundu allir þiggja meira fé úr ríkissjóði.

Grís fagnar deginum með Vef-Þjóðviljanum.
Grís fagnar deginum með Vef-Þjóðviljanum.

Vef-Þjóðviljinn á afmæli í dag. Útgáfa hans hófst 24. janúar 1997 og hefur hún því staðið í fjögur ár. Vef-Þjóðviljinn vill nota tækifærið til að þakka lesendum sínum samfylgdina. Sérstaklega hugsar hann til þeirra lesenda sem hafa létt honum lífið með fjárframlögum og einnig til þeirra sem hafa skrifað honum, hvort sem þeir hafa átt það erindi að koma með ábendingar um efnistök, þakka fyrir útgáfuna eða biðja ritstjórnina aldrei þrífast. Allir hafa fyrir sitt leyti minnt á nauðsyn útgáfunnar. Þeir sem vilja bætast í hóp styrktarmanna Vef-Þjóðviljans geta bæði gert það með því að fylla út dulkóðað eyðublað hér á vefnum eða prenta út eyðublað og sent það í faxi eða pósti.