Þriðjudagur 23. janúar 2001

23. tbl. 5. árg.

Gale Norton
Gale Norton

Sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar í Bandaríkjunum eru að ganga af göflunum yfir því að George W. Bush hefur tilnefnt Gale Norton sem innanríkisráðherra sinn. Norton hefur um árabil starfað að umhverfismálum. Það hefur hún gert á annan hátt en þeir, sem af hógværð tilnefna sjálfa sig umhverfisverndarsinna, vilja. Hún hefur talið það vænlegra til árangurs í umhverfismálum að einstaklingar, félagasamtök, landeigendur, fyrirtæki og stjórnvöld vinni saman að málum en að stjórnvöld taki einhliða ákvarðanir með boðum og bönnum. Norton hefur til dæmis beitt sér gegn því að alríkisstjórnin geri land upptækt eða verðlaust með því að friðlýsa það og staðið í stappi við stjórn Clintons sem hefur bannað nýtingu á stórum landssvæðum, ekki síst í vesturríkjum Bandaríkjanna. Þetta bann sem hefur komið í veg fyrir skógarhögg og grisjun skóga á stórum svæðum átti þátt í mikilli útbreiðslu skógarelda í vesturríkjunum síðasta sumar.
Norton hefur með öðrum orðum talið að maðurinn geti nýtt náttúrunnar gæði og notið hennar um leið. Umhverfisverndarsinnar hafa kallað tilnefninguna „árás á umhverfið“, „náttúruhamfarir“ og „móðgun við þá sem hafa áhuga á umhverfisvernd“.

Sierra Club og fleiri umhverfisverndarsamtök munu í þessari viku eyða yfir 1 milljón dollara í auglýsingaherferð gegn vali Bush á Norton. Í leiðara dagblaðsins Rocky Mountain News er þessi heiftúðuga áróðursherferð kölluð „pólitískt jihad“ gegn Norton. Í síðustu viku voru þrír starfsmenn Greenpeace handteknir fyrir að klifra upp á byggingu innanríkisráðuneytisins og breiða út borða sem á stóð „Bush og Norton: Okkar land, ekki olíuland“ til að mótmæla þeirri skoðun Bush og Norton að vinna megi olíu úr náttúruverndarsvæðum í Alaska. Búast má við fleiri leiksýningum af þessu tagi enda eru umhverfisverndarsamtökin með þaulæfða atvinnumótmælendur á launaskrá sinni. Þessi skríll leggur mikið upp úr því að slasa lögreglumenn og valda eignaspjöllum eins og „mótmæli“ þeirra í Seattle og Prag báru með sér. Nokkur umhverfisverndarsamtök, þeirra á meðal öfgasamtökin Vinir jarðar, hafa sett upp sérstaka heimasíðu til höfuðs Norton. Á síðunni er það gagnrýnt harðlega að hún sé ekki sammála öllum boðum og bönnum frá Washington D.C. um nýtingu lands og annarra náttúruauðlinda. Norton hefur hins vegar lagt mikið upp úr því að einstök ríki hafi sjálfdæmi um sín mál og er bæði andvíg því að alríkisstjórnin ráðskist með land í eigu ríkjanna og einstaklinga. Hún hefur haldið því fram að bæta eigi landeigendum þegar ríkið gerir land þeirra verðlaust með friðlýsingu og átti aðild að þremur málum gegn innanríkisráðuneytinu sem hún nú á að taka að sér að stýra. Þetta þola umhverfisverndarsamtökin ekki. Einn helsti samnefnari umhverfisverndarsamtaka er virðingarleysi fyrir eignarétti. Stefna þessara samtaka, eignaspjöll og skemmdarverk þeirra um allan heim, m.a. á hvalveiðiskipum í Reykjavíkurhöfn, eru til vitnis um það.

Það skýrist í vikunni hvort umhverfisverndarsinnum verður ágengt með áróðri sínum gegn Norton en staðfesti þingið tilnefningu hennar er óhætt að segja að áhrif umhverfisverndarsinna hafi minnkað stórlega á nokkrum mánuðum. Það varð þeim áfall að Gore tapaði fyrir Bush og skipan Nortons verður sannkallað reiðarslag fyrir þau umhverfisverndarsamtök sem áttu greiðan aðgang að fráfarandi ríkisstjórn Bandaríkjanna.