Mánudagur 22. janúar 2001

22. tbl. 5. árg.

Um helgina lét William Clinton af embætti forseta Bandaríkjanna og hefðu ýmsir reyndar getað unnt honum næðis og hvíldar fyrr. En allt um það, Clinton er horfinn úr Hvíta húsinu og annar maður fluttur þangað inn. Undanfarnar vikur hafa sagnfræðingar og „stjórnmálaskýrendur“ mjög velt fyrir sér hvernig beri að skilgreina valdaskeið Clintons og hvað beri hæst. Svo virðist sem forsetinn fyrrverandi hafi fylgst með þeirri umræðu af áhuga og jafnvel ákveðið að reyna að verða þar sjálfur að liði. Að minnsta kosti virðist sem hann hafi á lokadögum sínum í embætti ákveðið að draga upp með einföldum og skýrum hætti meginatriði Clinton-tímabilsins í sögu Bandaríkjanna.

Það sem Clinton forseti Bandaríkjanna hafðist að síðustu tvo sólarhringana í embætti var í sem stystu máli þetta: Hann gekkst við því að hafa framið meinsæri fyrir rétti, hann meðgekk að hafa afvegaleitt réttvísina, hann féllst á að vera sviptur málflutningsréttindum sínum næstu fimm árin, hann samþykkti að greiða 25.000 Bandaríkjadala sekt og hann samdi við saksóknara um að horfið yrði frá ákærum á hendur sér. Og hálfri annarri klukkustund áður en hann lét af embætti gaf hann sem þjóðhöfðingi Bandaríkjanna bróður sínum, Roger Clinton, upp sakir.

Þetta er all nokkuð starf á tveimur dögum. Ætli Clinton-tímanum verði lýst með skýrari eða einfaldari hætti?