Helgarsprokið 21. janúar 2001

21. tbl. 5. árg.

Nýtur öryrki meiri sjálfsvirðingar ef hann nýtur stuðnings ríkisins en fjölskyldunnar? Í Morgunblaðinu í dag segir að nú í janúar þurfi 472 öryrkjar að lifa á 70.285 krónum en þeir halda einir heimili og hafa ekki aðrar tekjur en þær sem hið opinbera velferðarkerfi réttir þeim. Dómur hæstaréttar í svonefndu öryrkjamáli fjallar ekki um þessa einstaklinga sem sjálfsagt búa við kröppust kjör allra öryrkja. Dómur hæstaréttar varðar hins vegar þá öryrkja sem eiga maka sem hefur tekjur. Í kjölfarið lagði ríkisstjórnin fram frumvarp sem hækkar lágmarksbætur til öryrkja í sambúð úr 18.424 krónum í 43.424. Öryrkjabandalagið vill að þessar lágmarksbætur til öryrkja í sambúð verði 50.990. Um það stendur styrinn. Heitu ræður stjórnarandstöðunnar á Alþingi snúast ekki um að bæta kjör þeirra öryrkja sem lökust hafa kjörin heldur hinna sem búa við góðar heimilistekjur a.m.k. í samanburði við þá einstæðu öryrkja sem minnst hafa.

„Það er vægt til orða tekið að ósmekklegt sé af forystu öryrkja að halda því fram að þeir sem þiggi aðstoð sinna nánustu hafi við það misst sjálfsvirðinguna.“

Á þessum síðum hefur stundum verið rætt um að velferðarkerfi ríkisins hafi smám saman brotið á bak aftur hina frjálsu samhjálp einstaklinganna og félagasamtaka þeirra. Hið opinbera hefur tekið vaxandi hlut af sjálfsaflafé fólks og gert því erfitt að sýna náungakærleik í verki. Og nú er því haldið að fólki að náungakærleikur sé atlaga að sjálfsvirðingu fólks. Þeir sem njóta þess að í fjölskyldunni er aflað góðra tekna séu ekki sjálfstæðir einstaklingar og njóti ekki mannréttinda fyrr en þeir fái ákveðna upphæð frá ríkinu. Já, það er búið að reikna mannréttindin út upp á krónu. Þeir sem eiga maka með 400 þúsund krónur í tekjur á mánuði njóta ekki mannréttinda ef þeir fá 18.424 eða 43.424 krónur frá ríkinu heldur verða þær að vera 50.990. Ekki er gott að segja hvaða reikniregla var notuð til að reikna mannréttindi út með slíkri nákvæmni. Það eru ekki mörg ár síðan greidd voru laun hér á landi fyrir fulla vinnu sem voru undir 50.990 krónum og atvinnuleysisbætur voru það einnig. Efnahagsástandið var einfaldlega þannig að ekki voru tök á því að gera betur við ýmsa launþega. Voru mannréttindi fótum troðin á þessum árum? Er slæmt efnahagsástand mannréttindabrot? Stór hluti mannkyns hefur langt undir 50.990 krónum úr að spila í mánuði. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Víða eru þjóðir stutt komnar í efnahagslegu tilliti þótt öll skilyrði séu fyrir hendi til að bæta þar úr á næstunni. Þar má nefna ýmis ríki Austur-Evrópu sem þjökuð voru af sósíalisma þar til fyrir rúmum áratug. Er með sanngirni hægt að halda því fram að mannréttindi séu þar fótum troðin þar til laun hafa hækkað upp fyrir 50.990 krónur?

Umræðan í kjölfar dóms hæstaréttar hefur því miður leitt af sér enn frekari útþynningu mannréttindahugtaksins. Mannréttindi felast í því að fá að vera í friði fyrir yfirgangi annarra en ekki í kröfu um að aðrir veiti þér áþreifanleg verðmæti, allt frá 50.990 króna örorkubótum til 10 milljóna króna í fæðingarorlofsstyrk til hátekjufólks sem eignast barn.

Ef því er haldið fram að sjálfsvirðingu þeirra sem minna mega sín sé betur borgið með því að þiggja bætur frá hinu opinbera en frá þeim sem næstir standa er búið að snúa hlutunum á höfuðið svo um munar. Þeir sem þiggja bætur hins opinbera eru að taka við peningum frá skattgreiðendum án tillits til þess hvort skattgreiðendurnir hafa áhuga á að láta fé af hendi rakna eða ekki. Sjálfsvirðingu manns er ekki betur borgið með því að hann þiggi fé þess sem ekki vill styðja hann en með því að taka við fé þess sem gefur það með glöðu geði.

En umræðan um sjálfsvirðingu á ekki við í þessu samhengi og er aðeins sett fram til að gera málstað þeirra sem eru ósammála niðurstöðu hæstaréttar verri. Það er vægt til orða tekið að ósmekklegt sé af forystu öryrkja að halda því fram að þeir sem þiggi aðstoð sinna nánustu hafi við það misst sjálfsvirðinguna. Þetta eru heldur ógeðfelld skilaboð til allra þeirra sem þurfa að reiða sig á aðstoð sinna nánustu, hvort sem menn eru öryrkjar eða ekki. Enginn maður missir sjálfsvirðinguna við að njóta aðstoðar sinna nánustu, þó tal þar um henti nú (flokks)pólitískum hagsmunum forystu öryrkja. Það sem „öryrkjamálið“ snýst í raun um er hvort ríkinu beri skylda til að veita öllum mönnum stuðning, algerlega án tillits til þess hvort þeir þurfa á honum að halda eða ekki. Og það snýst um leið um það hvort ríkið neyðist til að leggja á enn hærri skatta en það gerir nú til að þjóna þessum annarlegu sjónarmiðum. Ein af forsendum þess að á Íslandi ríki velsæld í framtíðinni er að hér verði áfram drjúgur hagvöxtur, öflugt atvinnulíf og að fólk geti haft þokkalegar ráðstöfunartekjur. Ríkið tekur nú um fjórar krónur af hverjum tíu sem menn vinna sér inn, en ef skattgreiðendur eiga að halda fólki uppi hvort sem það þarf stuðning eða ekki er stutt í að þetta hlutfall verði komið vel yfir helming. Þá þarf enginn að láta sér detta í hug að draumur margra um áframhaldandi og vaxandi velmegun hér á landi – hvort sem rætt er um velmegun öryrkja eða annarra – verði að veruleika.