Laugardagur 20. janúar 2001

20. tbl. 5. árg.

Margt er líkt með skyldum. Á Trafalgar-torgi í Lundúnum hefur lengi verið mikið af dúfum og ferðamenn hafa haft ánægju af því að gefa þeim. En ekki hafa allir verið ánægðir með þetta samband fólks og dúfna. Að minnsta kosti er Ken Livingstone, hinum nýja borgarstjóra í Lundúnum, ekki skemmt og hafa borgaryfirvöld nú lagt blátt bann við því að hinum illlu óargadýrum, dúfunum, sé gefið annað en langt nef á Trafalgar-torgi.

Og svo sérstakt sem það er, þá eru einnig til aðrir vinstri menn sem sjá ofsjónum yfir bílífinu í slíku fiðurfé. Á Tjörninni í Reykjavík hafa endur lengi haldið til og á bakkanum spíkspora gæsir. Kynslóðum saman hafa börn komið að Tjörninni til að færa „bra-bra“ góðgæti en þar sem þær gjafir hafa verið stopular og þar að auki einkum á þeim árstíma þegar þörfin fyrir þær er minnst, þá tíðkaðist það árum saman að borgarstarfsmenn hlupu undir bagga og gáfu fuglunum. Allt þar til Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur varð nóg boðið og hún lagði blátt bann við því að borgarstarfsmenn gæfu hinum illu óargadýrum, öndunum og gæsunum, annað en langt nef við Tjörnina. Auðvitað mun Vefþjóðviljinn ekki hvetja sérstaklega til opinberra brauðgjafa út á tjarnir en það segir sína sögu að ein helsta sparnaðarhugmynd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra hafi verið að hætta að gefa öndum og gæsum brauðafganga.

Ekki er gott að segja hvað þessir merku leiðtogar hafa á móti fuglunum. Að minnsta kosti virðast þeir líta svo á að ánægjan sem vegfarendur hafa af þeim nægi ekki til þess að sjá megi í gegnum fingur sér hugsanleg óþægindi af þessum villidýrum. Í Lundúnum héldu einhverjir spaugarar því fram að Ken Livingstone, sem sumir hafa kallað „friðardúfuna“ eftir ötult hans starf fyrir friðarhreyfingar, óttaðist samkeppni við hinar dúfurnar, en ekki leggur Vefþjóðviljinn trúnað á slíkar kenningar. Bæði virðast þær afar langsóttar auk þess sem þær skýra varla hvað borgaryfirvöld í Reykjavík hafa á móti gæsum.