Föstudagur 19. janúar 2001

19. tbl. 5. árg.

Stöð 2 flutti af því fréttir í gær að skilnaðir hefðu aldrei verið fleiri. Þessu til staðfestingar var birt tal við prest sem hafði rætt við einhverja kunningja sína úr stéttinni sem höfðu þetta á tilfinningunni. Þessi frétt var því í besta falli af þróun sem ef til vill er til staðar en í versta falli hreinn tilbúningur. En ekki nóg með það. Presturinn var að sjálfsögðu fenginn til að meta ástæðurnar fyrir þessari þróun sem ef til vill hefur átt sér stað. Ekki stóð á skýringum. Það er lífsgæðakapphlaupið, hraði og spenna. Mikið vill meira. Íslendingar hafa aldrei átt meiri eignir, aldrei haft hærri tekjur, aldrei haft meiri frítíma, aldrei ferðast jafn mikið, aldrei lifað jafnlengi, aldrei étið jafnmikið; aldrei haft það jafngott. Íslendingar hafa það svo gott að það er orðið vandamál – að minnsta kosti tilbúið vandamál.

Því er svo að sjálfsögðu slegið föstu að skilnaðir séu vandamál þótt ástæðan fyrir þeim kunni að vera sú að menn telji sig betur setta eftir skilnað en fyrir. Er það vandamál að fólk sé betur sett en áður? En vandamálin hafa örugglega aldrei verið fleiri svo mikið er víst. Enda vinnur stór hluti þjóðarinnar við leit að vandamálum. Þegar vandamálin – sem enginn hafði haft grun um að væru vandamál – eru fundin tekur við leit að lausn vandans. Og þá liggur beint við að leita til fagfólksins, þess sem uppgötvaði öll þessi alvarlegu vandamál.

„Þar að auki var hann lengi í æðstu stjórn Alþýðuflokksins, nú síðast sem formaður hans, og átti sem slíkur ríkan þátt í að sameina jafnaðar- og félagshyggjufólk í Samfylkinguna.“ sagði Rannveig Guðmundsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar við Vísi í gær í tilefni af hvarfi Sighvats Björgvinssonar úr pólitík. Eins og félagar hans úr Viðeyjarstjórninni, Jón Sigurðsson, Jón Baldvin Hannibalsson og Eiður Guðnason, verður Sighvatur skiptinemi og komu þróunarlöndin í hans hlut. Og það ber að taka undir með Rannveigu um „sameiningu“ félagshyggjufólks. Hinn ríki þáttur Sighvats í „sameiningu“ félagshyggjufólks í eina Samfylkingu verður seint fullþakkaður – þ.e.a.s. þegar af henni verður. Í ljósi þess að ekki varð af samvinnu vinstri manna eftir áralangt þróunarstarf Sighvats lá auðvitað beint við að gera hann að framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar.