Fimmtudagur 18. janúar 2001

18. tbl. 5. árg.

Frá því hefur verið sagt í fjölmiðlum að í Kaliforníuríki sé nú orkuskortur vegna þess að markaðsöflunum hafi verið gefinn þar laus taumurinn fyrir fáeinum árum. Líklega er þetta sagt vegna misskilnings og vanþekkingar en ekki af meinfýsi eða því að einhverjir fjölmiðlamenn hafi horn í síðu markaðarins og vilji túlka honum flest í óhag. Fjölmiðlamenn eru sem kunnugt er hlutlausir, jafnt í frásögn sinni sem vali á viðfangsefni. Staðreyndin er sú að það sem gerðist í Kaliforníu var alls ekki markaðsvæðing orkugeirans. Í raun var komið upp flóknum gervimarkaði sem byggir að hluta til á uppboðsfyrirkomulagi fyrir raforku og að hluta á verðlags- og framleiðsluhömlum. Þessi „markaður“ er ágætt dæmi um það þegar menn halda að hægt sé að ná árangri í framleiðslu og dreifingu á vöru með öðrum hætti en þeim að láta eignarrétt og markaðshagkerfi starfa eðlilega.

Ýmislegt brást í þessu kerfi. Þar má nefna að smásöluverð á raforku er fast en heildsöluverðið ekki. Fyrirtæki sem selja raforku til notenda hafa því ekki getað hækkað verð til þeirra þó að innkaupsverðið hafi margfaldast. Þetta hefur meðal annars þær afleiðingar að smásalarnir eru á barmi gjaldþrots og að neytendur hafa ekki séð nokkra ástæðu til að draga úr orkunotkun sinni. Flóknar reglur um raforkuframleiðslu og sölu, auk óvissu um framhaldið og hver afskipti hins opinbera kunni að verða, hafa einnig leitt til þess að lítill áhugi hefur verið á að fjárfesta í nýjum raforkuverum. Það setur enginn maður fé í að reisa raforkuver ef hann má búast við því að hið opinbera setji hámarksverð á orkuna eða beiti hann öðrum þvingunum.

Ólíkt því sem gerist á frjálsum markaði eru skilaboðin sem send eru til neytenda og framleiðenda í gegnum gervimarkaðinn í Kaliforníu alröng. Markaðshagkerfi sendir framleiðendum þau skilaboð að framleiða meira þegar eftirspurn eykst og neytendur fá þau skilaboð að nota minna þegar framboð minnkar. Þetta gerist í gegnum breytingar á verði, en verðið er mun skilvirkari leið til að koma slíkum skilaboðum áleiðis en skriffinnar munu nokkurn tímann verða.

Þeir sem vilja lesa sér frekar til um raunverulega markaðsvæðingu í orkumálum geta til dæmis byrjað á því að líta í Handbook for Congress sem Cato stofnunin gaf út á dögunum. Þar er sérstakur kafli helgaður þessu ágæta viðfangsefni.