Miðvikudagur 17. janúar 2001

17. tbl. 5. árg.

Útgjöld hins opinbera vegna vegagerðar eru aðeins brot af því sem bíleigendur greiða í skatta. Þessir skattar eru hins vegar notaðir að hluta til að niðurgreiða óhentugar og illa nýttar almenningssamgöngur. Ýmsir bíleigendur myndu taka því fegins hendi að greiða beint fyrir notkun á vegum með vegatollum í stað þess að greiða skatta á bíla og eldsneyti. Í tímaritinu Reason var nýlega sagt frá því að framlag hins opinbera með hverri farþegamílu á einkabíl í Bandaríkjunum á síðasta áratug hafi verið 0,1 cent en 40 cent með svonefndum almenningsfarartækjum. Þrátt fyrir allt koma bíleigendur í Bandaríkjunum engu að síður út með örlitlum „hagnaði“ í viðskiptum sínum við hið opinbera enda greiða þeir afar litla skatta á evrópskan mælikvarða.

Strætisvagnar Reykjavíkur aka um 55 milljónir farþegakílómetra á ári og borgarbúar niðurgreiða starfsemina um 500 milljónir króna (árið 2000). Niðurgreiðslan er því um 9 krónur á farþegakílómetra í strætó. Hér er ekki gert ráð fyrir að borgin beri neinn aukakostnað af SVR vegna viðhalds gatna, snjómoksturs o.s.frv. þótt ljóst megi vera að hann er töluverður. Ef gert er ráð fyrir að meðaleinkabíll borgarbúa fari 10 þúsund kílómetra á ári og í honum séu 1,3 farþegar að meðaltali og bílarnir í borginni séu 60 þúsund eru farnar 780 milljónir farþegakílómetra á ári á einkabílum. Ef borgin vildi niðurgreiða hvern farþegakílómetra í einkabíl á sama hátt og í strætó þyrftu framlög hennar til gatnagerðar, götulýsingar, snjómoksturs og annarrar fyrirgreiðslu við bíleigendur að nema 7 milljörðum króna á ári!

Á síðasta ári námu útgjöld Reykjavíkurborgar til reksturs gatna- og holræsa ásamt framlagi ríkisins til þjóðvega í þéttbýli hins vegar um 1,6 milljörðum króna. Ekki er gott að segja að hve miklu leyti er sanngjarnt að gera ráð fyrir að þessi kostnaður sé vegna einkabílsins en gerum ráð fyrir að hann sé það allur. Þá er niðurgreiðsla borgarinnar með hverjum farþegakílómetra í einkabíl rúmar 2 krónur. Á móti koma hins vegar tekjur hins opinbera af einkabílnum og ef gera má ráð fyrir að borgarbúar greiði eðlilegan hlut í þeim 30 milljörðum sem hið opinbera heimtir af bíleigendum á ári hverju eru það tæpir 13 milljarðar króna. Bíleigendur í Reykjavík eru því í 11,4 milljarða mínus gagnvart hinu opinbera.

Miðað við þetta einfaldaða dæmi má því segja að á meðan strætisvagnafarþeginn fær 9 krónur í styrk frá borginni fyrir hvern kílómetra sem ferðast þarf maðurinn í einkabílnum að leggja fram 15 krónur til hins opinbera fyrir hvern kílómetra sem hann fer. Við þetta bætist svo að strætisvagnafarþeginn mengar í mörgum tilfellum meira en farþegi í einkabíl eins og Vef-Þjóðviljinn fjallaði um í haust.