Þriðjudagur 16. janúar 2001

16. tbl. 5. árg.

Steven Thoburn grænmetiskaupmaður og frú
Steven Thoburn grænmetiskaupmaður og frú

Á kontóra Evrópusambandsins virðast hafa valist einstakir dugnaðarforkar í reglugerðasmíði. Að vísu kemur það á móti að bæði eru kontórarnir stórir og skriffinnar margir og eitthvað verða þeir að hafa sér til dundurs. Sannast hér enn það sem Vef-Þjóðviljinn hefur áður bent á að óunnin yfirvinna opinberra starfsmanna er stundum besti hluti starfs þeirra. A.m.k. þætti Steven Thoburn grænmetiskaupmanni í Sunderland á Englandi það sjálfsagt ekki verra ef skriffinnar ESB fengju einungis greitt fyrir óunna vinnu og hefðu ekki sett reglugerð um mælieiningar árið 1994 sem kveður á um að menn skuli nota kíló og gramm í stað bresku eininganna únsu og punds. Í gær átti að leiða Thoburn fyrir rétt vegna málsins en hann hafur haldið því til streitu í verslun sinni að nota bresku einingarnar. Vogir í verslun hans voru því gerðar upptækar og hann ákærður fyrir að selja pund – en ekki kíló – af banönum. Í gær voru Bretar hvattir til að kaupa vörur í bresku einingunum og fá kvittun þar um. Kvittunina eiga menn að senda til stuðningsfélags Thoburns. Heimsmetabók Guinness fylgist með málinu enda má búast við að nýtt heimsmet í afbrotum á einum degi í einu landi verði sett.

Það vantar ekki að Evrópusambandið setur flestar reglugerðir sínar í nafni neytendaverndar og „réttinda“ af ýmsu tagi. Oftast er reglunum, að sögn, beint „gegn atvinnurekendum“ og „til hagsbóta fyrir neytendur“. Það gleymist hins vegar að margir neytendur eru líka atvinnurekendur. Það gleymist einnig að atvinnurekendur þurfa að innheimta þann kostnað sem reglugerðarfarganið hefur í för með sér. Einu gildir hvort það eru reglur um sykurkör, reglur um þil á salernum veitingahúsa, reglur um kryddpylsu- og pastagerð sem eyðileggja ítalska matargerðarhefðir eða bann við vinnu unglinga á Íslandi. Allt hefur þetta kostnað í för með sér sem neytendur þurfa á endanum að greiða í hærra vöruverði. Með þessum reglugerðastraumi um neytendavernd er einnig verið að steypa allt í sama mót, minnka vöruúrval og í raun að taka valdið af neytendum. Á endanum verða það skriffinnar á launum hjá hinum almenna manni sem velja í innkaupakörfuna fyrir hann og það sem hann greiðir við kassann er hærra en ef hann hefði valið sjálfur.