Mánudagur 15. janúar 2001

15. tbl. 5. árg.

Ronald Reagan fyrrverandi forseti Bandaríkjanna er á spítala þessa dagana vegna beinbrots en hann stríðir einnig við Alzheimer sjúkdóminn. Reagan varð forseti fyrir 20 árum, í janúar 1981. Í ræðu við innsetningu sína í embætti forseta vék hann að því að í 200 ár hefur verið skipt um valdhafa í Bandaríkjunum á lýðræðislegan og friðsaman hátt. „Í hugum okkar sem stöndum hér er þetta einstæð stund en engu að síður er þetta viðtekin venja í sögu þjóðar okkar. Í nær tvær aldir hafa stjórnarskipti farið fram eins og fyrir er mælt í stjórnarskrá landsins og fæst okkar leiða hugann að því hve einstök við erum fyrir vikið. Þótt við lítum á þennan atburð á fjögurra ára fresti sem eðlilegasta hlut í heimi er víst að margir aðrir íbúar heimsins telja hann ganga kraftaverki næst.“ Þótt liðin séu 20 ár frá því þessi orð voru sögð eru þau þörf lesning þeim sem hafa horn í síðu Bandaríkjanna við hvert tækifæri sem gefst.

Það er margt fleira gott í þessari ræðu Reagans. Til dæmis má nefna eftirfarandi orð: „Af og til freistumst við til að álíta að þjóðfélagið sé orðið svo flókið að hópur útvalinna sé betur til þess fallinn að stjórna en fólkið sjálft. En ef ekkert okkar getur stjórnað eigin málum getum við vænst þess að eitthvert okkar geti stjórnað öðrum?“

Ekki er gott að segja hverju það fólk er andvígt sem segist andvígt viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við dómi hæstaréttar í máli öryrkja. Samkvæmt könnun DV eru um 70% landsmanna andvíg viðbrögðum stjórnarinnar. Er þetta fólk andvígt því að bætur séu hækkaðar til þeirra sem eiga maka með góðar tekjur eða vill það að þær verði hækkaðar meira?

Líkt og undafarin ár býður Institute for Humane Studies við George Mason University vikulöng námskeið fyrir áhugafólk um hagfræði, stjórnmál og heimspeki.  Námskeiðin eru haldin á sumrin í háskólum víðs vegar um Bandaríkin og þau eru ókeypis í þeim skilningi þess orðs að aðrir en þeir sem njóta þeirra greiða fyrir þau. Umsóknarfrestur fyrir námskeið sumarsins er til 31. mars. Þó nokkrir Íslendingar hafa sótt þessi námskeið undanfarinn áratug og látið vel af þeim.