Helgarsprokið 14. janúar 2001

14. tbl. 5. árg.

Skattar, fjárlagaafgangur, skuldir ríkisins og fleira góðmeti voru umræðuefni greina í The Wall Street Journal í nýliðinni viku. Þegar fylgst er með umfjöllun um þessi mál í Bandaríkjunum má sjá að margt er líkt með ástandinu þar og á Íslandi og því eitt og annað sem Íslendingar geta lært af frændum sínum fyrir vestan. Meðal þess sem er svipað í ríkjunum tveimur – fyrir utan það auðvitað að bæði Bandaríkin og Ísland eru stórveldi í hugum íbúa ríkjanna – er að töluverður fjárlagaafgangur er vandamál í báðum ríkjum. Þá hefur umræða um hvort rétt sé að nota hann til niðurgreiðslu erlendra lána eða til skattalækkunar skotið upp kollinum beggja vegna Atlantshafs.

„Það eru ekki aðeins hagfræðileg rök fyrir því að lækka nú skatta hér á landi svo um munar, heldur eru pólitísku rökin einnig sterk.“

Í The Wall Street Journal er sagt frá því að ekki séu haldbær rök, hvorki reynslurök né önnur, fyrir því að niðurgreiðsla skulda muni lækka vexti og þannig ýta undir hagvöxt. Þar er m.a. á það bent að frá því afkoma ríkissjóðs tók að batna árið 1993 hafi vextir sveiflast og séu nú hærri en þeir voru þá. Þar að auki verði að líta á allan heiminn sem uppsprettu fjármagns og í því samhengi séu jafnvel erlendar skuldir Bandaríkjanna smáar að vöxtum. Skuldirnar eru um 3.500 milljarðar Bandaríkjadala, en á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eru um 70.000 milljarðar Bandaríkjadala í boði.
Annað sem nefnt er í þessu sambandi er að þó vöxturinn hafi verið góður, eða 3,7%, í tíð Bills Clintons, þegar afkoma ríkissjóðs hafi farið batnandi, hafi hann verið enn betri, eða 4,5%, á þeim árum sem Ronald Reagan var við stjórnvölinn og halli var mikill á ríkissjóði.

Blaðið segir að það sé ekki aðeins óþarft að greiða niður erlendar skuldir, heldur sé hreinlega ástæða til að gera það ekki. Auk þess sem bent er á að ríkisskuldabréf þjóni ýmsum tilgangi á fjármagnsmarkaðnum, er vísað til þess að reynslan sýni að skattalækkun fylgi aukinn hagvöxtur, þó slíkt samhengi sé ekki á milli niðurgreiðslu skulda og hagvaxtar. Lækkun tekjuskatts, eins og nýkjörinn forseti, George W. Bush hefur barist fyrir, muni verka hvetjandi á almenning og þar með atvinnulíf. Skattalækkun frá sjöunda og níunda áratugnum styðji þetta viðhorf.

En jafnvel þó litið sé framhjá hagfræðilegu rökunum, séu pólitísku rökin gegn því að nota fjárlagaafgang til niðurgreiðslu skulda augljós. Þingið muni ekki hafa – og hafi aldrei haft – pólitískt þrek til þess að standa gegn útgjöldum þegar allar hirslur eru fullar fjár.

Hagfræðingurinn kunni Arthur B. Laffer ritar einnig grein í The Wall Street Journal þar sem fjallað er um skattalækkun og minnir á að Reagan hafi með góðum árangri fylgt þeirri stefnu að lækka skatta. Skattalækkun Reagans hafi styrkt hagkerfið mikið og það hafi átt sinn þátt í að tryggja honum góðan sigur þegar hann leitaði endurkjörs árið 1984. Með þessu brýnir hann George W. nú til að standa fast við loforð sitt um skattalækkun. Umræða um slík loforð er ef að líkum lætur viðkvæm í fjölskylduboðum á „The Bush Ranch“ í Texas, enda tapaði faðir George W. endurkjöri vegna þess að hann hélt sig ekki við áform sín um skattalækkun.

Hið sama mættu stjórnvöld hér á landi að ósekju hafa í huga. Það eru ekki aðeins hagfræðileg rök fyrir því að lækka nú skatta hér á landi svo um munar, heldur eru pólitísku rökin einnig sterk. Verði ríkissjóður áfram rekinn með afgangi mun það áfram þýða að þingmenn munu auka útgjöld eins og þá lystir. Og þingmenn hafa sem kunnugt er töluverða lyst enda haldnir þráhyggju-áráttu eyðsluröskun þegar þeir koma saman til umfjöllunar um útgjöld hins opinbera. En aukin útgjöld hins opinbera stuðla ekki að kröftugra efnahagslífi; þau drepa það þvert á móti í dróma. Verði skattar hins vegar lækkaðir mun almenningur hafa meira milli handanna og efnahagslífið lyftast upp.
Ef ofangreind rök duga ekki, geta þeir sem við stjórn sitja þó að minnsta kosti litið til þess að með skattalækkun aukast líkur þess að þeir fái að sitja áfram.