Laugardagur 13. janúar 2001

13. tbl. 5. árg.

Það er afar snjall leikur hjá pólitíkusum að blása til sóknar gegn meintum hörmungum og koma í veg fyrir þær með „aðgerðum“ sínum. Þetta er ekki síst sniðugt ef hörmungarnar eru hreinn hugarburður því þá er útilokað að aðgerðirnar mistakist. Pólitíkusinn getur svo stært sig af því að hafa afstýrt voðanum. Þegar þetta gerist fær almenningur hins vegar rangar upplýsingar um mál er varða öryggi hans.

Í vikunni blés umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar til sóknar gegn nautakjöti frá Írlandi sem flutt var til landsins. Hefur nefndin með framgöngu sinni í raun haldið því að fólki að það muni fá Creutzfeldt-Jakob sjúkdóminn af neyslu þessa kjöts. Í viðtali við Dag í gær sagði Hrannar B. Arnarsson formaður nefndarinnar að það sé alveg ófært að neytendur séu óvarðir fyrir því að slíkar afurðir séu á boðstólum verslana í borginni. Ólafur F. Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í nefndinni, sagði í viðtali á Rás 2 að það sé „siðlaust“ að heimila innflutning á nautakjöti frá löndum þar sem kúariða hefur greinst. Í stað þess að kynna sér staðreyndir málsins og þær rannsóknir sem farið hafa fram á tengslum riðu og Creutzfeldt-Jakob sjúkdómsins í mönnum var hlaupið í fjölmiðla með stóryrtar yfirlýsingar. Svo virðist sem nefndin hafi ætt af stað með hræðsluáróður sinn áður en hún gaf sér tíma til að kynna sér hvað menn vita um kúariðuna.

Í frétt Morgunblaðsins í dag er sagt frá blaðamannafundi sem yfirdýralæknir hélt vegna málsins í gær. Í máli hans kom meðal annars fram að kjötið hafi verið rannsakað með tilliti til kúariðusjúkdómsins og kjötið komi af dýrahjörðum þar sem sjúkdómurinn hafi ekki greinst. Ekki mun heldur hafa greinst riðusmitefni í þeim hlutum dýrsins sem fluttir voru inn. Yfirdýralæknir segir það samdóma álit vísindamanna að riðusmit finnist ekki í nautavöðvum eins og þeim sem fluttir voru inn.

En það eru fleiri sem vilja maka krókinn á þessu máli en óvandaðir pólitíkusar. Stjórn landssambands kúabænda hefur ályktað að „eftirlit með þessum vörum sé tekið til endurskoðunar og fyllstu varkárni gætt við þann innflutning sem leyfður er með hagsmuni neytenda í huga“. Einmitt það – hagsmunir neytenda!