Föstudagur 12. janúar 2001

12. tbl. 5. árg.

Í gær voru liðin 15 ár frá því gefin var út ákæra á hendur Kjartani Gunnarssyni, Eiríki Ingólfssyni og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Í ákærunni sagði að þeir væru ákærðir „fyrir brot á útvarpslögum og lögum um fjarskipti með því að hafa, þrátt fyrir fulla vitneskju um einkarétt Ríkisútvarpsins á útvarpi og einkarétt ríkisins á uppsetningu fjarskiptavirkja, sammælst um stofnun og rekstur útvarpstöðvar í Reykjavík undir nafninu „Frjálst útvarp“, og síðan miðvikudaginn 3. október 1984 hafið útsendingar útvarpsefnis í tali og tónum til viðtöku fyrir almenning og haldið því áfram daglega fram til miðvikudagsins 10. október, að hald var lagt á tækjabúnað útvarpsstöðvarinnar að Austurbrún 2, Reykjavík, og útsendingu var hætt.“

Þremenningarnir á sakamannabekk fyrir rekstur fjölmiðils. Myndin er úr myndasafni á heimasíðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.
Þremenningarnir á sakamannabekk fyrir rekstur fjölmiðils. Myndin er úr myndasafni á heimasíðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.

Forsaga málsins var sú að 10. september 1984 skall á verkfall bókagerðarmanna. Við það stöðvaðist útgáfa allra dagblaða, annarra fréttablaða og tímarita um allt land. Hinn 1. október hætti Ríkisútvarpið einnig útsendingum að undanskildum veðurfréttum. Ríkisútvarpið var á þessum tíma eini ljósvakamiðill landsins. Þremenningarnir tóku þá ákvörðun um að hefja útvarpsendingar í Reykjavík og hófust útsendingar 2. október með lestri ávarps þar sem sagði m.a.: „Kæri hlustandi. Útvarpsstöðin sem þú ert að hlusta á, Frjálst útvarp, er rekin af nokkrum einstaklingum í Reykjavík til þess að tryggja Reykvíkingum lágmarks frétta- og öryggisþjónustu meðan starfsmenn Ríkisútvarpsins eru í verkfalli og dagblöð geta ekki komið út vegna verkfalla. Frjálst útvarp mun leitast við að gefa sem gleggsta og réttasta mynd af atburðum á innlendum vettvangi og erlendum.“ Nánar má lesa um þá atburðarás sem á eftir fylgdi í bókinni Deilt á dómarana eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, sem varði þremenningana fyrir rétti, og einnig í Fjölmiðlum nútímans eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Málaferlum fyrir dómstólum lauk með því að þremenningarnir voru sakfelldir og hverjum gert að greiða 25.000 krónur í sekt til ríkissjóðs en sæta varðhaldi í 12 daga ella. Málinu sjálfu lauk hins vegar með því að einokun Ríkisútvarpsins var afnumin.

Við þetta má svo bæta að hinn merki rannsóknarblaðamaður Karl Th. Birgisson ræddi það í Spéspegli Ríkisútvarpsins í fyrradag að Kjartan Gunnarsson hefði sest í stjórn fjölmiðlafyrirtækis. Karl sagði m.a.: „Það er erfitt að ímynda sér hvað í ósköpunum framkvæmdastjóri stjórnmálaflokks [Kjartan Gunnarsson], sem hefur aldrei komið nálægt rekstri fjölmiðla, á að gera í stjórn útgáfufyrirtækis annað en að styrkja tengsl þess fyrirtækis og þess stjórnmálaflokks.“ Eins og rakið var hér að ofan hefur Kjartan Gunnarsson „aldrei komið nálægt rekstri fjölmiðla“ að öðru leyti en því að hann er ekki aðeins einn fárra Íslendinga sem hlotið hefur dóm fyrir rekstur fjölmiðils heldur rak hann eina fjölmiðil landsins um tíma.