Laugardagur 27. janúar 2001

27. tbl. 5. árg.

Það er óhætt að lesa Rabbið í lesbók Morgunblaðsins að þessu sinni, en þar heldur Atli Harðarson á penna. Í lesbókinni í dag ritar Atli um lýðræði og tekjujöfnun og gerir tilraun til að skýra hvers vegna tekjujöfnun ríkisins fer út um þúfur, þ.e. hvers vegna hún skilar sér ekki til þeirra sem fátækastir eru. Atli skrifar: „… það er sama hvaða flokkar eru við völd, millifærslur innan efstu 6 eða 7 tekjubilanna eru alltaf miklu meiri heldur en frá efstu bilunum til þess neðsta. Hvernig stendur á þessu ósamræmi milli orða og gjörða? Hvernig stendur á því að ríkisvaldið er t.d. tregara til að hækka örorkubætur eða auka stuðning við þroskahefta heldur en að styrkja byggðarlag þar sem flestir hafa tekjur yfir meðallagi, niðurgreiða námslán fyrir fólk sum mun tilheyra efri lögum samfélagsins þegar kemur að skuldadögum, setja upp sýningarbása í Hannover eða búa til rándýr embætti handa fyrrverandi stjórnmálamönnum?“

Atli gleymir að vísu langstærsta dæmi síðari ára um félagslega aðstoð við hina best settu en það eru nýleg lög um fæðingarorlof sem veita foreldrum með hæstu tekjurnar hæstu bæturnar og foreldrum með lægstu tekjurnar lægstu bæturnar. Þingmenn allra flokka studdu þetta mál á Alþingi á síðasta ári og eru fyrir vikið vart marktækir þegar þeir kyrja sönginn um nauðsyn þess að bæta kjör hinna verst settu. En Atli gerir tilraun til að skýra hvernig það má vera að hinir verst settu verði útundan þegar kemur að því að deila út skatttekjum ríkisins. „Hluti af skýringunni er auðvitað að þeir sem með völdin fara eru ekki lausir við græðgi, frekju og aðra ljóta lesti neitt frekar en við hin. Þeir misnota aðstöðu sína til að bæta eigin hag á kostnað almennings. Annar hluti af skýringunni er að vel skipulagðir þrýstihópar haf áhrif á pólitískar ákvarðanir og fólk í efri tekjubilunum myndar öflugri þrýstihópa heldur en þau 10% sem búa við verst kjör.“ Atli telur raunar að þessar tvær skýringar dugi engan veginn einar og sér og teflir fram þeirri þriðju.

Þriðja skýring Atla er samkeppni stjórnmálaflokka til hægri og vinstri um fylgi miðjuhópanna þ.e. þess mikla meirihluta fólks sem hefur það hvorki mjög gott né slæmt. Vilji flokkarnir halda fjöldafylgi verði þeir að höfða til þessa hóps með einhverjum hætti og þar sem flestir láti afstöðu sína í kosningum að einhverju leyti ráðast af beinum hagsmunum. Atli birtir einfalt líkan af því hvaða áhrif þetta hefur á stefnu flokkanna og þá ekki síður á það hvernig þeir stjórna. Líkanið fær hann að hluta að láni úr bókinni The State eftir Anthony de Jasay. En því má líka velta fyrir sér hvort þessi skýring sé ekki í raun nánari útlistun á annarri skýringu Atla. Þ.e. þegar allt er talið þ.m.t. atkvæðisréttur í kosningum myndi miðjuliðið einfaldlega öflugustu þrýstihópana.