Helgarsprokið 24. desember 2000

359. tbl. 4. árg.

Í dag er gefið og gefið – og svolítið þegið líka. Margir finna fyrir því að nokkur sannleikur er í þeim orðum að sælla sé að gefa en þiggja. Þess vegna gefa þeir líka aðra daga ársins og þá ekki endilega sínum nánustu heldur þeim sem þeir álíta að þurfi þess helst með. Menn greiða stundum gíróseðla frá hjálparstofnunum, kaupa blöð slíkra stofnana og stinga aurum í bauka frá þeim. Þetta gera menn með glöðu geði og því má halda fram að í slíkum stuðningi við þá sem minna mega sín felist nokkur dygð. Það má jafnvel segja að þjóðfélag þar sem menn eru örlátir við þá sem minna mega sín sé að öðru jöfnu geðfelldara en þjóðfélag þar sem enginn lætur sjálfviljugur nokkuð af hendi rakna til bágstaddra. En þetta gildir aðeins ef menn gefa sjálfviljugir, ekki ef menn eru neyddir til að „gefa“ í gegnum skattgreiðslur.

Nýleg rannsókn Fraser stofnunarinnar í Kanada á gjafmildi Kanadamanna og Kana kemur líklega sumum Kanadamönnum á óvart, því þeir hafa talið sig búa í gjafmildara þjóðfélagi en Kanarnir fyrir sunnan landamærin. Kanarnir eiga samkvæmt kenningunni að hugsa minna um náungann og hefur verið haft til marks um þetta að umsvif velferðarríkisins í Bandaríkjunum eru minni en í Kanada. Rannsókn Fraser stofnunarinnar leiðir hins vegar í ljós að jafn hátt hlutfall Kanadamanna og Kana gefur til hjálparstofnana, en munurinn er sá að Kanarnir gefa mun hærri upphæðir en Kanadamennirnir, hvort sem mælt er sem hlutfall af tekjum eða í beinhörðum peningum. Fraser stofnunin telur líklegt að skýringin sé sú að fyrir sunnan landamærin eru skattar lægri en fyrir norðan og því hafi fólk meira til gjafa. Auk þess er líklegt að fólki finnist að þegar ríkið skattleggur það af miklum þunga með þeim rökum að velferðarkerfið sé dýrt, þá telji það sig ekki þurfa að leggja jafn mikið af mörkum og ef ríkið heldur meira að sér höndum. Rannsóknir frá Bandaríkjunum hafa sýnt svipaða hluti, þ.e. að þegar skatthlutfallið er hátt þá gefi menn minna til góðgerðarmála en þegar það er lágt.

Vef-Þjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.