Laugardagur 23. desember 2000

358. tbl. 4. árg.

Halldór Kiljan Laxness var einn allra öflugasti áróðursmaður kommúnismans á Íslandi á þessari öld. Þetta viðurkenna margir en fáir gera sér þó grein fyrir því hversu ákafur stuðningsmaður Stalíns, Sovétríkjanna og kommúnismanns Halldór var. Og jafnvel þó sumir fari nærri um þetta, þá er stundum eins og þeim þyki það bara lítið sem ekkert verra. „Þetta er bara meðal þess sem er sjarmerandi við karlinn“, heyrist stundum. „Já já, enginn er nú fullkominn“, segja aðrir. Og flestir bæta svo við til að klára málið: „Já og svo dró hann allt saman til baka í Skáldatíma.“

Það er nú það. Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að mæla á móti því að margir hafa haft mikla ánægju af mörgu því sem Halldór skrifaði um dagana. En það er engu meiri ástæða til að loka augunum fyrir því að Halldór Kiljan Laxness hafði einnig önnur áhrif og verri á fólk um sína daga. Árum saman lagði hann á sig ómælt erfiði til að vinna kommúnismanum – mestu helstefnu sem lögð hefur verið á mannkynið – land á Íslandi og stílgáfu sinni varði hann til að lofsyngja hér mann að nafni Jósef Stalín – mann sem ásamt Maó Tse Tung og Adolf Hitler má teljast mesti fjöldamorðingi mannkynssögunnar.

Og Halldór talaði ekki aðeins sem hugsjónamaður og rithöfundur. Á fyrri hluta aldarinnar var annað þjóðfélag en nú. Utanlandsferðir voru fátíðar, erlendir fjölmiðlar bárust sjaldan til landsins og fæstir þekktu til annarra landa en Íslands og Danmerkur. En þegar Halldór Kiljan Laxness talaði um Sovétríkin við Íslendinga þá talaði hann sem sjónarvottur. Halldór ferðaðist um Sovétríkin og að því búnu kom hann heim og skrifaði bækur þeim til dýrðar. Og var þá að undra að ýmsir teldu sér óhætt að gera sér vonir um að austur í Moskvu hefðu þeir Lenín og Stalín stofnsett himnaríki á jörð? Halldór ferðaðist til dæmis þvert og endilangt um Úkraínu árið 1932 þar sem fólk dó umvörpum úr hungri. Frá því var sagt á Vesturlöndum en þegar Halldór kom heim hafði hann aðrar fréttir að færa. Í júlí 1934 skrifaði hann í Sovétvininn: „Ég ferðaðist um Ukraine þvert og endilangt í „hungursneyðinni“ 1932. Það var yndisleg hungursneyð. Hvar sem maður kom var allt í uppgangi.“

Vorið 1938 var Halldór kominn til Moskvu. Þá var hann gestkomandi í íbúð Veru Hertzsch, þýskrar barnsmóður Benjamíns H. J. Eiríkssonar hagfræðings. Að Halldóri ásjáandi kom leyniþjónusta Stalíns og handtók Veru og tók dóttur þeirra Benjamíns með sér. Síðan spurðist ekki til þeirra en þjóðskáldið fór heim og skrifaði nýja bók, Gerska æfintýrið, til dýrðar Sovétríkjunum og „snildarmanninum“ Jósef Stalín. Og um Lenín hafði hann einnig allt gott að segja: „Verk Leníns er eitthvert einstæðasta afreksverk veraldarsögunnar, trú hans á mannkynið hefur gert okkur ríka, hann hefur gefið rússnesku byltíngunni ódauðlega sál og nafn hans mun verða nefnt í lotníngu og aðdáun meðan starfandi hönd hrærist á jörðinni.“ Og áður en Halldór Kiljan Laxness yfirgaf Sovétríkin vitjaði hann Leníns í grafhýsi hans og greindi frá því að sagt væri að við andlát Leníns „hefðu hundrað og sextíu miljónir manna mist hinn nákomnasta og kærasta vin sinn.“

Það var því ekki að undra að margir íslenskir lesendur hafi í góðri trú hneigst að þeirri stefnu sem leitt hefur meiri hörmungar yfir mannkynið en nokkur önnur. Margir menn – sumir oft kallaðir „andans menn“ – lögðu líka mikið á sig við að draga upp fallega mynd af þessari helstefnu og harðstjórunum sem studdust við hana. Halldór Kiljan Laxness var ekki sá eini sem braut kommúnismanum land á Íslandi þó hann hafi verið einna áhrifamestur þeirra. Ekki eru hér tök á að rekja þá sögu eins ýtarlega og vert er, en hins vegar skal vakin athygli á ákaflega athyglisverðri bók þar sem þess er freistað. Í bókinni Moskvulínunni fjallar dr. Arnór Hannibalsson, prófessor við Háskóla Íslands, meðal annars ýtarlega um samskipti Halldórs Kiljans Laxness og Sovétríkjanna, allt frá því Halldór hóf ungur baráttu fyrir málstað Stalíns og þar til hann sneri við blaðinu í Skáldatíma árið 1963, þá nýkominn á sjötugsaldur. Moskvulínan kom út fyrir síðustu jól en fæst enn í öllum helstu bókaverslunum. Hún er ótvírætt ein athyglisverðasta bók sem komið hefur út á Íslandi undanfarin misseri.