Mánudagur 25. desember 2000

360. tbl. 4. árg.

Dauðarefsingar tengjast iðulega umræðu um bandarísk stjórnmál og komu oft upp í umræðum um þau í nýlegri kosningabaráttu vestra. Þær koma þó ekki síður til tals utan Bandaríkjanna, þar á meðal á Íslandi, og þá aðallega vegna þess að sumir vel upplýstir kaffihúsaspekingar fjölmiðlanna virðast halda að annar stóru stjórnmálaflokkanna þar í landi sé fylgjandi dauðarefsingum og hinn ekki. Og að annar forsetaframbjóðenda þessara flokka sé stuðningsmaður dauðarefsinga en hinn ekki. Staðreyndin er þó því miður sú að báðir stóru flokkarnir og báðir frambjóðendurnir eru einarðir stuðningsmenn dauðarefsinga. Og hið sama á við um mikinn meirihluta Bandaríkjamanna, ef marka má skoðanakannanir.

Refsingar hafa að minnsta kosti tvíþættan tilgang, að fæla menn frá því að brjóta af sér og að halda þeim af götunum. Fangelsisvist uppfyllir þessi skilyrði og með því að halda mönnum á bak við lás og slá ævilangt er hægt að koma í veg fyrir að stórhættulegir menn geti endurtekið glæpi sína. Dauðarefsing er hins vegar orðin eitthvað annað og meira en fæling og að halda mönnum af götunum. Hún virðist aðallega hafa þann tilgang að aðstandendur og jafnvel þjóðfélagið allt geti náð fram hefndum á brotamanninum. En er hefnd réttmæt ástæða til að ríkið beiti tiltekinni refsingu? Nei, ríkið ætti ekki að stjórnast af löngun til hefndar.

Af ræðum og hegðun stjórnmálamanna í Bandaríkjunum að dæma eru Bandaríkjamenn afar kristnir menn. Það er hins vegar dálítið undarlegt að fyrirgefningin skuli ekki vera þeim ofar í huga þegar þeir taka afstöðu til dauðarefsinga en hefndin, því fyrirgefningin er óneitanlega ríkari þáttur í kristinni trú en hefndin. Hvernig væri að menn gerðu eins og segir í þekktu orðatiltæki; að þeir fyrirgæfu óvinum sínum en legðu andlit þeirra á minnið.