Þriðjudagur 19. desember 2000

354. tbl. 4. árg.

„Aðhald í ríkisfjármálum felst ekki í því að skila ríkisjóði með svo og svo miklum afgangi heldur fyrst og fremst í því að halda aftur af hækkun útgjalda, sem því miður hefur ekki tekist í fjárlögum fyrir árið 2001 þrátt fyrir góð fyrirheit þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram í haust“, sagði í leiðara Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Vef-Þjóðviljinn hefur oft, en ekki nógu oft, furðað sig á því að þeir stjórnmálamenn sem geta ekki lækkað skatta á landsmenn vegna meintrar eyðslusemi og þenslu hika ekki við að auka útgjöld ríkisins. Það er eins og fé sem tekið er af almenningi sé blessað þegar það kemur í ríkissjóð. Eftir þá blessun er óhætt að eyða því í hvers kyns gæluverkefni, heimssýningu, þjóðmenningarhús, tónlistarhús, ný sendiráð, aukið fæðingarorlof, auknar barnabætur, göt í fjöll, brýr yfir eyðifirði, fleiri heiðurslaun listamanna o.s.frv. o.s.frv. Jafnvel tímabundnar tekjur sem ríkið fær með einkavæðingu og skila ríkissjóði tekjuafgangi eru notaðar sem afsökun til að auka ríkisútgjöldin. Fjármálaráðherra lítur greinilega á afgang af rekstri ríkissjóðs sem einu hagstærðina sem ekki er afgangsstærð.

Á sama tíma ganga sveitarstjórnir, hinn hluti hins opinbera, einnig ótæpilega í vasa landsmanna til að mæta meintum fjárskorti sínum. Engu að síður koma fram tillögur í bæði Reykjavík og Hafnarfirði að þessi skuldsettu sveitarfélög kaupi nýsmíðaðar fornminjar á borð við víkingaskip.

Á dögunum var listamönnum sem hljóta svonefnd heiðurslaun listamanna frá Alþingi fjölgað um helming. Nú eru það því átján listamenn sem Alþingi hefur sérstaka velþóknun á. Menn geta velt því fyrri sér hvort styrkir af þessu tagi eru sanngjarnir gagnvart þeim listamönnum sem fá ekki slíka styrki. Eins og sagt var frá hér í Vef-Þjóðviljanum lét Gunnar Smári Egilsson reyna á það fyrir Samkeppnisstofnun fyrir nokkrum árum en að sjálfsögðu komust „samkeppnisyfirvöld“ að því að slíkir styrkir til útvalinna væru eðlilegir. En slíkir styrkir eru ekki eingöngu ósanngjarnir gagnvart þeim sem ekki njóta þeirra. Meginatriðið er að þeir eru ósanngjarnir gagnvart þeim sem þurfa að greiða þá, skattgreiðendum. Peningar eru teknir af þeim sem hafa unnið fyrir þeim og færðir til þeirra listamanna sem fulltrúar í menntamálanefnd Alþingis eru hrifnir af. Hvers vegna má fólk ekki ráðstafa fé sínu sjálft?

HEIMSKASTIÞað kemur svo ekki á óvart að þeir listamenn sem fá heiðurslaunin eru í settlegri kantinum. Vef-Þjóðviljinn veltir því til dæmis fyrir sér hvort rithöfundur á borð við Mikael Torfason ætti mikla möguleika á að komast á launaskrá menntamálanefndar Alþingis. Í nýjustu bók hans Heimsins heimskasta pabba eru til dæmis svo skrautlegar lýsingar á flestum blaðsíðum að ekki er víst að Sigríði Önnu Þórðardóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Árna Johnsen og Sigríði Jóhannesdóttur og fleiri nefndarmönnum í menntamálanefnd þætti rétt að verðlauna þær sérstaklega. Kolbrúnar Halldórsdóttur er þar að auki getið í bókinni, en óvíst að það sé með þeim hætti að það hjálpi Mikael þegar nafn hans ber á góma í nefndinni. Því þótt bókin sé lipurlega skrifuð hjá Mikael þá verður því ekki neitað að ýmsar lýsingar hans á mannlegu atferli eru ýtarlegri en menn eiga að venjast, og gengur hann til dæmis mun lengra en hann gerði í síðustu bók sinni, Sögu af stúlku. Sumum lesendum mun líka það vel, öðrum ekki. Og við slíku er auðvitað ekkert að segja. Og meðal annars vegna þess að fólk hefur misjafnan og ólíkan smekk þá ætti ríkið að stilla sig um að nota skattpeninga til að verðlauna einn og hundsa annan.