Mánudagur 18. desember 2000

353. tbl. 4. árg.

Útflutningsbætur eru gerðar að umfjöllunarefni í nýlegu tölublaði The Economist og segir tímaritið að þó ýmiss konar innflutningshindranir séu fallnar úr tísku eigi hvers kyns útflutningsbætur sér enn formælendur. Rökin fyrir stuðningi við útflutningsgreinar eru margtuggin og þekkt: Stuðningur við nýjan iðnað, mótleikur vegna sambærilegs stuðnings erlendis, atvinnusköpun og svo framvegis. The Economist bendir á að slíkur stuðningur hafi veruleg vandkvæði í för með sér og vísar í nýlega rannsókn sem sýni að lítil lönd sem keppi við niðurgreidda framleiðslu geti orðið fyrir velferðartapi með því svara í sömu mynt. Hið sama geti verið uppi á teningnum ef reynt sé að leggja á verndartolla sem svar við stuðningi erlendra ríkja við eigin framleiðslu. Í fyrrnefndri rannsókn sé hins vegar minnt á að viðskiptafrelsi auki ævinlega velferð til lengri tíma litið. Niðurstaða rannsóknarinnar, segir tímaritið, er líka sú að þó allt sé lagt í sölurnar til að styðja við útflutning sé það engin trygging fyrir því að árangur náist. Ekkert þeirra þróunarlanda sem notað hafi útflutningsbætur, ef frá er talin Suður-Kórea, hafi aukið útflutning sinn hraðar en þau lönd sem gripu ekki inn í markaðskerfið með þessum hætti. Stuðningurinn var því í besta falli sóun á fjármunum.

En það þarf svo sem ekki nýlegar rannsóknir til að komast að því að stuðningur við útflutning er af hinu illa. Hefðbundnar hagfræðikenningar segja mönnum þetta og hafa gert lengi. Í bókinni Hagfræði í hnotskurn, sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu, er meðal annars fjallað um afleiðingar af stuðningi við útflutningsgreinar. Þar er tekin fyrir ein útgáfa af stuðningi við útflutning og tekið dæmi af því þegar eitt ríki lánar öðru til að örva eigin útflutning:

Á meðal röksemdanna, sem settar eru fram til stuðnings miklum lánveitingum til útlanda, er ein ranghugmynd, sem alltaf er áberandi í umfjölluninni. Hún er á þessa leið: „Jafnvel þótt helmingur lánanna (eða öll lánin) sem við lánum öðrum löndum tapist, mun þjóðin samt sem áður standa betur að vígi með því að hafa veitt þau vegna þess að þau munu vera gríðarlegur hvati fyrir útflutning okkar.“

Það ætti að blasa við að ef lánin, sem við veitum öðrum löndum svo þau geti keypt vörurnar okkar, eru ekki endurgreidd, þá erum við að gefa vörurnar. Þjóð getur ekki orðið rík með því að gefa vörur. Hún getur aðeins gert sjálfa sig fátækari.