Miðvikudagur 20. desember 2000

355. tbl. 4. árg.

Að mæra einkavæðingu er orðið eins og að reyna að telja fólki trú um að vatn geti verið blautt. Jafnvel vinstrigrænir eru svo til hættir að andmæla einkavæðingu á hugmyndafræðilegum forsendum og reyna fremur að þvælast fyrir með tæknilegum rökum eins og þvaðri um landsbyggðina, tímasetningu og tímaskorti eins og kom í ljós fram á Alþingi í síðustu viku þegar rætt var um ríkisbankana.

Institute of Economic Affairs í London átti sinn þátt í því að sala ríkisfyrirtækja hófst í Bretlandi í valdatíð Margrétar Thatcher og fór svo sigurför um heiminn. John Blundell framkvæmdastjóri stofnunarinnar hefur sett fram lista yfir 10 afleiðingar einkavæðingar í Bretlandi:

1. Lægra verð. Þegar samkeppni leysir embættismenn af hólmi lækkar verð. Notendur gass í Bretlandi hafa til dæmis sparað sér 1 milljarð punda frá því samkeppni hófst.
2. Aukin gæði. Þeir sem nota síma í Bretlandi vita hvað við er átt. Sambandið er öruggara og skýrara – ásamt því að vera ódýrara.
3. Aukið val. Í Bretlandi geta jafnvel minnstu heimili valið á milli mismunandi gas- og rafveita.
4. Minni spilling. Fyrir 20 árum var þriggja mánaða bið eftir síma og greiða þurfti 20 pund í mútufé til að komast upp biðlistann. Í dag ákveðurnotandinn hvenær símafyrirtækið sem hann velur kemur og tengir.
5. Meiri fjárfesting. Við einkavæðingu taka langtímasjónarmið við af árlegri ferð til ráðherra og fjárlaganefndar. Símafyrirtæki hafa blómstrað vegna þessa.
6. Meiri sköpunargleði. Fyrir einkavæðingu gátum við valið um tvær gerðir af símum; hvítan og svartan! Nú eru sérstakar verslanir fullar af ýmsum gerðum símtækja.
7. Betri stjórnun. Rafveitur hafa helmingað kostnað sinn frá einkavæðingu. Stjórnunaraðferðir einkageirans hafa svo sannarlega rutt sér til rúms.
8. Minna baktjaldamakk. Nú birta fyrirtækin reikninga sína, blaðamenn geta skoðað þá og viðskiptavinir fengið svör við spurningum sínum. Allir hafa betri hugmynd um hvað fer fram innan fyrirtækjanna.
9. Aukið aðhald. Fyrirtækin njóta nú aðhalds frá hlutabréfamarkaði og stjórnendur geta sett sér markmið. Áður voru fyrirtækin háð duttlungum pólitíkusa sem kröfðust þess m.a. að óarðbær störf heima í kjördæmi væru ekki lögð niður.
10. Færri verkföll. Í hinum einkavæddu greinum (sem eru margar viðkvæmar fyrir verkföllum eins og kolaiðnaður, rafveitur og járnbrautir) eru verkföll undantekning. Nú eru 80% verkfallsdaga í landinu í Póstinum – sem var ekki einkavæddur!