Föstudagur 1. desember 2000

336. tbl. 4. árg.

Þegar menn skrifa merkar bækur þá er mikilvægt að vanda öll vinnubrögð. Þetta hefur Dagur B. Eggertsson haft í huga þegar hann vann að meistaraverkunum um það áhugaverða efni, ævi Steingríms Hermannssonar. Hann hefur haft úrvalsmenn í liði með sér enda þakkar hann þeim samstarfið í eftirmála síðustu bókar. Segir þar meðal annars:

„Vökul augu Sverris Jakobssonar sagnfræðings hafa einnig fylgt verkinu frá fyrsta bindi til hins síðasta. Ábendingar hans hafa oftar en ekki leitt til þess að staðfestingar var leitað á vafaatriðum og að missagnir voru lagfærðar.“

Þetta hefur mælst vel fyrir hjá ritdómurum enda lýkur einn þeirra lofsorði á vinnubrögð Dags í ritdómi í DV í gær:

„[Dagur B. Eggertsson] hefur unnið hér mikið og gott verk; ævisaga þessi er óvenju vönduð og efnismikil.“ 

Svo skrifar hinn virti ritdómari, Ármann Jakobsson íslenskufræðingur og er Dagur jafn vel að lofi hans kominn og Sverrir að lofi Dags.

Flestir pólitíkusar landsins hafa lýst yfir áhyggjum af þenslunni þ.e. því ástandi að almenningur og fyrirtæki eyði of miklu. Segja þeir að ekki sé hægt að lækka skatta því þá eyði menn enn meiru og aðallega í vitleysu. Þess vegna er gaman að sjá hvernig þeir sem vanda um fyrir öðrum fara að á Alþingi í umræðum um fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Á skömmum tíma hafa einhverjir þingmenn fengið hugmyndir að nýjum útgjöldum ríkissjóðs upp á 3.800 milljónir króna. Þessi nýju útgjöld koma til viðbótar við þau auknu útgjöld sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í haust. Þótti ýmsum nóg um þá eyðslu sem þar var boðuð. Meðal þess sem þingmenn hafa talið geta slegið á eyðsluna í þjóðfélaginu eru 10 milljónir til lagfæringa á skíðasvæðinu í Tungudal við Skutulsfjörð, 20 milljónir til þess að mæta sérstökum kostnaði við rannsóknir meiriháttar fíkniefnamála, 6 milljónir til viðgerða og endurbóta á Dómkirkjunni og 10 milljónir til framkvæmda á lóð Hallgrímskirkju. Ef til vill er galdurinn fólginn í því að þingmenn eru að eyða annarra manna fé en ekki eigin.

Forsíða Tímans 13. október 1970
Forsíða Tímans 13. október 1970

Árið 1970 voru á ritstjórn Tímans framsóknarmenn af gamla skólanum, hallir undir ríkisforsjá og aukin ríkisumsvif. Á forsíðu blaðsins þegar fjárlagafrumvarp var lagt fram þá um haustið var rituðu þeir með stríðsfyrirsögn Verðbólgufrumvarp – og aukin útþensla ríkisbáknsins. Þá voru útgjöld hins opinbera 29,9% af landsframleiðslu en eru nú um 38% og stefna hærra eftir því sem þingmenn með áhyggjur af eyðslu og þenslu fá meiri tíma til að sýna okkur hinum hvernig gæta á ráðdeildarsemi.