Laugardagur 2. desember 2000

337. tbl. 4. árg.

Einn mikilvægur þáttur samkeppninnar er þjónusta. Þannig keppa verslanir um hylli neytenda ekki bara með því að bjóða fram tiltekna vöruflokka heldur líka með því að veita margs konar þjónustu. Sumar verslanir leggja mikið upp úr því að veita kúnnum sínum skilarétt á vörum, aðrar leggja áherslu á að hafa afgreiðslutímann rúman og enn aðrar á að hafa faglært starfsfólk. Allt þetta er háð mati verslunareigandans á kröfum neytendanna sem án efa hafa ólíkar þarfir við mismunandi aðstæður. Sumum neytendum getur til dæmis þótt það heppilegt að geta keypt hljómplötu seint á kvöldin en þótt það minna mikilvægt að geta skilað henni eða skipt seinna. Við kaup á flóknum tækjabúnaði er oft nauðsynlegt að geta leitað til sérfróðs starfsfólks en sá sem kaupir sér hljómplötu er sjaldnast áhugasamur um menntun og skoðanir sölumannsins. Neytendur gera örugglega misjafnar kröfur til þessa alls en þó er einn þáttur þjónustunnar langflestum neytendum nokkuð mikilvægur. Það er að fá upplýsingar um verð þeirrar vöru sem hugurinn stendur til. Fæstir ganga til samninga um kaup á vörum án þess að spyrja um verð. Ef upplýsingar um verð liggja ekki fyrir áður en samningur er gerður liggja þær yfirleitt fyrir við greiðslu vörunnar.

Aðeins útsmognustu viðskiptavinir hafa rænu á að spyrja sjálfir um verð.
Aðeins útsmognustu viðskiptavinir hafa rænu á að spyrja sjálfir um verð.

Nú er Vefþjóðviljanum ekki kunnugt neina verslun þar sem boðnar eru fram vörur til sölu án þess getið sé um verð. Því síður kannast Vefþjóðviljinn við fólk sem hefur „lent í því“ að kaupa vöru án þess að fá að vita fyrirfram hvurslags fjárskuldbindingu það hafi í för með sér. Vefþjóðviljinn kannast hins vegar við marga sem myndu hreinlega hundsa verslanir þar sem vörur eru illa verðmerktar og afgreiðslufólk er önugt og tregt til að veita upplýsingar um verð. Vefþjóðviljinn á hins vegar erfitt með að ímynda sér að verðmerking í verslunum sé yfirleitt vandamál sem kallar á atbeina ríkisvaldsins. „Samkeppnisyfirvöld“ hafa hins vegar verið á annarri skoðun og hafa gert út opinberan verðmiðaeftirlitsmann.

Þegar samkeppnislögum var breytt nú í vor var verðmiðaeftirlitið treyst enn frekar í sessi, að kröfu samkeppnisyfirvalda sjálfra. Frá og með næstu viku hefur fyrrverandi Verðlagsstofnun heimildir til þess að sekta verslanir sem þykja „ekki standa sig“ í verðmerkingum um allt að 10 milljón krónur. „Samkeppnisyfirvöld“ eru þannig í raun að þvinga fyrirtæki til samráðs um þjónustu en samráð hefur hingað til verið eitur í beinum þessara sömu eftirlitsstofnunar. Allar verslanir skulu bjóða upp á sömu þjónustuna hvað þetta snertir. Framvegis verða engar verslanir sem skara fram úr í verðmerkingum. Margar litlar verslanir sem hafa sérhæft sig í persónulegri þjónustu og góðum verðmerkingum í stað mikils vöruúrvals munu hugsanlega á þennan hátt missa sérstöðu sína og neytendur verða hugsanlega ögn værukærari og kröfuminni er kemur að verðmerkingu. En samkeppniseftirlitinu stendur á sama um það. Svo lengi sem starfsfólk þess fær að vera í eftirlitshlutverki eru menn þar á bæ alsælir með breytingarnar á samkeppnislögunum.