Fimmtudagur 30. nóvember 2000

335. tbl. 4. árg.

Borgarbúar fagna. Þeir fagna því að samstaða hefur náðst milli R- og D-lista um byggingu yfirbyggðs fótboltavallar. Um tíma hafði litið út fyrir að ekki yrði af þessari bráðnauðsynlegu byggingu, en nú hefur verið hoggið á þann hnút og samþykkt í borgarráði að taka hagstæðasta tilboðinu. Báðir listarnir hafa barist fyrir þessu mikilvæga máli um nokkurt skeið, eða allt frá því hugmyndin skaut fyrst upp kollinum. D-listinn fagnar sérstaklega, enda má segja að hans þáttur í byggingu hússins sé jafnvel enn meiri en þáttur R-listans, sem þó er þess ákaflega fýsandi að húsið rísi. Svo mjög fýsir hann að sjá húsið rísa að hann telur ekki eftir sér að taka 1.129 milljónir króna úr rúmlega tómum sjóði borgarinnar til að reisa það.

Til marks um mikilvægi hússins og sem rök fyrir því hvers vegna nauðsyn krefur að það skuli byggt þrátt fyrir að taka þurfi 1.129 milljónir króna af borgarbúum nauðugum til að þess arna, skal nefnt að húsið er einir 20 metrar á hæð að innanmáli þar sem það rís hæst. Þetta þýðir – ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því – að þar til þjálfaðir menn geta sparkað knetti tæpa 20 metra í loft upp án þess að nokkuð verði til fyrirstöðu. Og það sem meira er þá munu þessir sömu menn geta runnið tugi metra á eftir þessum sama knetti, hvort sem er fram eða aftur völlinn. Og rýmið út til hliðanna verður ekki miklu síðra, sem sannar að óhjákvæmilegt er að húsið rísi þrátt fyrir að skattleggja þurfi hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni um 40.000 krónur til að svo megi verða. Nú, svo má ekki gleyma rekstrarkostnaðinum, en hann verður greiddur með bros á vör því í húsinu má setja niður mörk og senda knöttinn í þau hafi menn til þess löngun. Röksemdir fyrir útgjöldum til þessarar byggingar eru sum sé óhrekjanlegar og þess vegna hefði verið óhugsandi fyrir annan hvorn listanna að ganga gegn vilja hins um þetta ákaflega hús.