Fimmtudagur 23. nóvember 2000

328. tbl. 4. árg.

Fyrir nokkrum misserum ákvað þverpólitískur meirihluti alþingismanna undir forystu Sólveigar Pétursdóttur og Þorsteins Pálssonar en með stuðningi forræðishyggjufólks úr öllum flokkum, að hækka sjálfræðisaldur íslenskra ungmenna úr 16 árum í 18 ár. Áður höfðu 16 og 17 ára unglingar verið sjálfráða og þar með ráðið dvalarstað sínum og ýmsum persónulegum högum, meðal annars getað sótt um og þegið atvinnu eftir hentugleikum. En það mátti nú ekki lengur. Einhvers staðar voru ungmenni sem ekki kunnu fótum sínum forráð og til að geta haldið þeim inni á meðferðarstofnunum og hælum þá ákváðu forræðishyggjumenn að þúsundir annarra ungmenna skyldu bíða þessara mikilvægu réttinda tveimur árum lengur.

Hækkun sjálfræðisaldursins er ekki eini glaðningurinn sem stjórnlyndir ráðamenn hafa lumað á gagnvart ungmennum landsins. Að minnsta kosti hefur verið greint frá því í fréttum að árvökulir starfsmenn „Vinnueftirlits ríkisins“ hafi komið upp um þá óhæfu að hér og hvar vinni 17 ára „börn“ á veitingastöðum eftir myrkur og séu jafnvel að keyra út pizzur um borgina. Þetta segja eftirlitsmennirnir svo að stangist á við nýja reglugerð sem banni alla vinnu slíks fólks að næturlagi og ef ekki verði skjót breyting á, þá hyggist „Vinnueftirlitið“ kæra til lögreglu þá vinnuveitendur sem „láta börnin“ vinna með þessum hætti.

Væntanlega eru veitingahúsaeigendur engir áhugamenn um það að vera kærðir til lögreglu og því má ætla að þessi ungmenni missi vinnuna. Með því yrði strax unnið það að starfsmönnum félagsmálaráðuneytisins, sem munu hafa sett reglurnar sem banna ungu fólki að vinna næturvinnu, liði betur, og sömu sögu verður að segja um aðra forræðishyggjumenn. En aðrir verða verr settir. Ungmennin sem sóst hafa eftir vinnunni og vinnuveitendurnir sem hafa sóst eftir að hafa þau í vinnu, verða verr sett. En þó lögreglan muni í framtíðinni stöðva þau 17 ára „börn“ sem reyna að vinna að næturlagi þá er ekki víst að hinu opinbera verði að þeirri ósk sinni að „börnin“ verði öll sofandi heima hjá bangsa öll kvöld. Þó þeim í félagsmálaráðuneytinu þyki það líklega alger fjarstæða, þá heldur Vefþjóðviljinn því fram að 17 ára íslensk „börn“ muni þrátt fyrir allar reglugerðir halda áfram að eyða kvöldum og nóttum eins og þeim sjálfum sýnist. Þau muni fara sinna ferða eins og áður með þeirri einu undantekningu að þau örfáu þeirra, sem nú vinna launaða vinnu nótt og nótt, verði að hætta því. En það þykir forræðishyggjuliðinu kannski nægur ávinningur.