Líklega má fullyrða að flestir Íslendingar sem komnir eru af barnsaldri þekki nokkur deili á Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor og hafi skoðanir á honum og málflutningi hans. En hvort sem mönnum líka skoðanir Hannesar vel eða illa, þá þurfa þeir að vera forstokkaðir til að andmæla því að Hannes sé með afkastameiri fræðimönnum. Undanfarin ár hefur hann gefið út fjölda bóka þar sem hann reifar skoðanir sínar á alls kyns þjóðmálum. Hafa sumar bækur þessar að vonum vakið misjöfn viðbrögð og verið umdeildar eins og höfundurinn sjálfur. En nú ber svo við að Hannes hefur sent frá sér bók þar sem viðtökur lesenda ættu ekki að ráðast af því hvar í flokki þeir kunna að standa.
Eins og nafn bókarinnar – Fyndnir Íslendingar – gefur til kynna, þá eru þar sagðar gamansögur af ýmsum kunnum og ókunnum Íslendingum. Stök spaugyrði, hnyttnar athugasemdir og lipurleg tilsvör eru fjölmörg í bókinni sem margir ættu að geta skemmt sér vel við. Sérstaklega ættu áhugamenn um stjórnmál að finna ýmislegt við sitt hæfi því frásagnir af stjórnmálamönnum eru margar eins og ef til vill mátti búast við þegar litið er til alþekktra áhugamála bókarhöfundar. Segir til dæmis í bókinni af því að eitt sinn lögðu þingmenn Kvennalistans til að sett yrði á fót sérstök byggðastofnun fyrir konur og fengu þau viðbrögð samþingmanna sinna að Geir Gunnarsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, spurði hvort ekki væri þá rétt að setja jafnframt á fót sérstaka veðurstofu fyrir konur, og myndi hún aðeins spá góðu veðri.
Fleiri þingmenn Alþýðubandalagsins komast á blað í bókinni. Segir þar frá því að eitt sinn höfðu Alþýðubandalagsmenn ákveðið að stunda málþóf á Alþingi til að hindra framgangs máls sem þeir vildu stöðva. Hugðust þeir skiptast á um að tala og í áætlun þeirra var gert ráð fyrir að Hjörleifur Guttormsson myndi tala þar til klukkuna vantaði fimmtán mínútur í sex, en þá tæki næsti við. Þegar dró að tilsettum tíma var næsti maður hins vegar ekki sjáanlegur og stefndi í óefni. Svavar Gestsson sendi því Hjörleifi miða í ræðustólinn og spurði: „Geturðu talað til kortér yfir?“. Það reyndist auðsótt: „Kortér yfir hvað?“.
Vitaskuld eru margir aðrir en stjórnmálamenn í bókinni. Þar eru meðal annarra Árni Pálsson prófessor sem kvartaði yfir því að rónarnir hefðu komið óorði á brennivínið, Jón E. Ragnarsson sem hafði mestar áhyggjur af því að þeir sem best vissu hvernig ættu að stjórna landinu gætu því miður ekki tekið það að sér vegna anna við að keyra leigubíla, Pétur Pétursson þulur sem upplýsti áheyrendur um það að skyggnið á Sauðárkróki hefði verið svo lítið að þar hefðu menn einungis séð sína nánustu og Þórður Guðjohnsen sem sagði að eftir nýjustu verðhækkun áfengis hefði hann ekki lengur efni á því að kaupa sér skó.
En af því Vefþjóðviljinn fjallar gjarnan um stjórnmálabaráttuna í landinu og það sem henni tengist, vill hann ljúka þessari bókaumfjöllun sinni á þeim slóðum. Í Fyndnum Íslendingum segir frá því að eitt sinn var Guðlaugur Tryggvi Karlsson viðskiptafræðingur veislustjóri í samsæti Alþýðuflokkskvenna og vildi þar heiðra minningu látinna frumherja. Reis hann á fætur og mælti hátíðlega: „Að lokum ætla ég að biðja menn að standa upp og hrópa ferfalt húrra fyrir hinum látnu konum. Þær lengi lifi! Húrra!“