Miðvikudagur 22. nóvember 2000

327. tbl. 4. árg.

Um þessar mundir er Stöð 2 að sýna sjónvarpsþættina 20. öldin – brot úr sögu þjóðar í umsjón Jóns Ársæls Þórðarsonar. Samnefnd bók, byggð á þáttaröðinni, kom út nýverið hjá Nýja bókafélaginu. Ritstjóri bókarinnar er Jakob F. Ásgeirsson. Í bókinni er stilkað á stóru í sögu íslensku þjóðarinnar á öldinni sem er að líða. Hátt á þriðja hundrað myndir eru í bókinni, margar kostulegar. Þeir sem hafa áhyggjur af mengun á götum borgarinnar í dag geta séð Knud Zimsen borgarstjóra umkringdan hrossaskít stjórna „umferðinni“ á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis árið 1922. Mynd sem tekin er um áratug síðar sýnir menn í kröfugöngu á 1. maí eftir að kreppan skall á. Þar má sjá stóran borða með áletruninni Lifi Sovétríkin skaga upp úr mannþrönginni. Um fjórða áratuginn og kreppuna miklu segir meðal annars í bókinni: „Fjórði áratugurinn er tímabil kreppu, atvinnuleysis, vaxandi ríkisafskipta, viðskiptahafta og uppgangs harðstjóranna sem leiddi að lokum til heimstyrjaldarinnar síðari. Viðskiptakreppan skall á með miklu verðfalli á hlutabréfamarkaðnum í Wall Street haustið 1929 og stóð fram um 1933. Efnahagsbatinn varð hægur, ekki síst vegna ríkjandi verndarstefnu og viðskiptahafta. Verðfall á landbúnaðarafurðum og að því er virtist viðvarandi atvinnuleysi meðal verksmiðjufólks stórborganna skapaði öryggisleysi í lýðræðisríkjum Vesturlanda – í sama mund og fréttir bárust af miklum efnahagsvexti í Sovétríkjum Stalíns og Þýskalandi. Almenningur á Vesturlöndum gerði sér ekki grein fyrir hinu sanna ástandi í þessum ríkjum: hungursneyðinni í Úkraínu, ógnarstjórn og hreinsunum Stalíns, hernaðaruppbyggingu Hitlers og kúgun hans á Gyðingum og öðrum minnihlutahópum. Lýðræðið og kapítalisminn áttu undir högg að sækja; ungt fólk hreifst unnvörpum af kommúnisma og nasisma.“

Hér er andstæðum í stjórnmálum rétt lýst. Annars vegar er lýðræði og frjálst markaðskerfi og hins vegar samhyggjan; kommúnisminn og þjóðernissósíalisminn.Ótrúlega oft er kommúnisma og nasisma stillt upp sem andstæðum þótt um tvær greinar af sama meiði sé að ræða. Það er vafalaust ekki tilviljun að samhyggjan skýtur rótum á þessum krepputíma, þegar frjálsa markaðskerfið virtist hafa siglt í strand. Síðar hafa menn áttað sig á því að kreppan átti ekki upptök sín í markaðskerfinu sjálfu heldur voru aukin ríkisumsvif, verndarstefna, tollmúrar og síðast en ekki síst mistök í stjórn peningamála rót vandans. Um þessar ástæður var ritað töluvert hér í blaðinu í fyrra þegar 70 ár voru liðin frá hruninu mikla á Wall Street.