Helgarsprokið 19. nóvember 2000

324. tbl. 4. árg.

„Formæður okkar og feður mættu á Norðurlöndum fyrir svo sem 4.000 árum. Þeir komu til gjöfuls lands með gróðurvænt loftslag, miðjarðarhafsloftslag ríkti við sænsku vötnin og Óslóarfjörðinn, strendur Suður-Skaneyrar [Skandínavíu] voru líkar sólarströnd Miðjarðarhafsins, veðrið í Kaupmannahöfn líkara því á Rivíerunni nú. Þetta var nálægt hápunkti hlýindaskeiðsins. Síðan þessi veðursæld ríkti á Norðurlöndum hefur kólnað, þó með hléum, verulegum sveiflum í loftslaginu. Komið hafa mislöng (nokkrir áratugir eða árhundruð) hlýinda- eða kuldatímabil annað veifið. En þegar lengri tímabil eru skoðuð hefur jafnt og þétt sigið á ógæfuhliðina, stöðug undiralda kólnunar ríkir. Íslendingar hafa þannig verið býsna seinheppnir með tímasetningar á landnámi Íslands, mesta veðurblíða þessa hlýindaskeiðs (það er þess sem hófst fyrir um 10.000 árum, eftir síðustu stóru ísöld) var löngu liðin þegar Ingólfur kom. En kornið sem fyrstu Íslendingarnir höfðu með sér og sáðu í íslenska mold spratt ágætlega, veðurlagið var milt og gróskan mikil. Skógarnir gáfu við í brenni og til kolagerðar og jafnvel til smíða. Stór hluti norsku þjóðarinnar fluttist til Íslands. Landnáms- og þjóðveldishlýindin reyndust aðeins vera stutt hlýindatímabil, þegar Íslendingar missa sjálfstæðið var góðviðrisdögunum lokið, kornið spratt ekki lengur, skógarnir voru að hverfa. hnignun íslenskrar menningar og myrkur örbirgðar leggst yfir. Ísland færðist norður í óbyggilegt ísbelti jarðar. Fyrst nú á 20. öld rofar til á ný.“ Svo segir Friðrik Daníelsson efnaverkfræðingur frá í bók sinni 2000 árum eftir Vínlandsfund – Lifa Íslendingar annað árþúsund? sem kom út nýlega.

2000 árum eftir Vínlandsfund - Lifa Íslendingar annað árþúsund?
2000 árum eftir Vínlandsfund – Lifa Íslendingar annað árþúsund?

Í bókinni er fléttuð saman saga Íslendinga (og raunar alls mannkyns) og breytinga á veðurfari. Breytingar á veðurfari eru mjög til umræðu þessi misserin vegna meintra gróðurhúsaáhrifa af manna völdum og bókin því afar tímabært innlegg í þá umræðu. Lesendur bókarinnar hljóta að velta því fyrir sér hvernig ýmsir geti slegið því föstu að maðurinn hafi afgerandi áhrif á veðurfar jarðar þegar svo stórbrotnar breytingar hafa átt sér stað áður án þess að maðurinn geti með nokkru móti hafa átt þar hlut að máli. Um hvað reiddust gróðurhúsagoðin þá? Því er nú spáð með flóknum reiknilíkönum að veðurfarsbreytingar muni hafa áhrif á líf okkar á næstu öld. Nýjasta spáin, sem ýmsir líta á sem hinn endanlega sannleik, gerir ráð fyrir hitabreytingu upp á 1,5 – 6,0 °C. Þegar menn skima aftur í tímann má þó vera ljóst að það væri hreint glópalán ef engar breytingar af þessari stærðargráðu yrðu á veðurfari á næstu öld. Slíkar breytingar hafa átt sér stað á hverri öld svo langt sem við getum rýnt í fortíðina. Það er ansi skemmtileg lýsing á því í bókinni (bls. 149) hvernig umhverfisvár magnast upp í umfjöllun fjölmiðla með æsimennsku umhverfisverndarsamtaka og liðsinni stjórnmálamanna sem vilja fanga kastljós fjölmiðlanna með því að heita „aðgerðum“ gegn hættunni.

Höfundur leggur jafnframt talsvert á sig til að draga fram rómantískan en ekki órökstuddan mun á Íslendingum og öðrum Evrópumönnum, ekki síst Norðurlandabúum. Þótt Vef-Þjóðviljinn sé ekki hallur undir slíkar greiningar á þjóðum er ekki laust við að hann leyfi sér að vona, Íslendinga vegna, að þessi munur sé til staðar. Á þessum mun er til dæmis eftirfarandi fjörleg lýsing (bls. 34) með innskoti úr Egils sögu:
„Haraldur lúfa er enn í hugum Íslendinga tákn miðstýringar, ofstjórnar og áþjánar yfirvaldsins, tákn frelsissviptingar. Það er þrátt fyrir allt hann sem á aðalheiðurinn af því að Íslendingar urðu til eins og þeir eru. Manngerðin, sem Haraldur lúfa flæmdi til Íslands, var sú sem valdi frelsið og áhættuna fram yfir öruggan faðm miðstýringar og konungstjórnar.

„Haraldur konungur eignaðist í hverju fylki óðul og allt land, byggt og óbyggt, og jafnvel sjóinn og vötnin, og skyldu allir búendur vera hans leiglendingar, svo þeir eru á mörkina ortu, og saltkarlarnir og allir veiðimenn bæði á sjó og landi, þá voru allir þeir honum lýðskyldir. En af þessi áþján flýðu margir menn af landi brott -. Og í þann tíma fannst Ísland.“ (Egils saga)

Haraldur lúfa var einn af brautryðjendum í ofstjórn á Norðurlöndum. Opinbera stjórnkerfið breyttist síðan eftir hans dag og ummyndaðist með öldunum, en grunntónninn hélst sá sami: stjórna stranglega sem flestu, miðstýra og leggja á kvaðir og skyldur, og ekki síst, skattleggja. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að það hafi verið lán að Íslendingarnir, með sögu og skáldskaparhefð Norðurlandamanna í farteskinu, sluppu í tæka tíð. Það var ekki seinna vænna að bjarga því sem bjargað varð frá menningardoða ofstjórnar Haraldar lúfu og hans eftirkomenda. Íslendingar tóku ekki við verstu ánauð lénsskipulagsins, þeir undirurpu sig ekki kúgun kirkjunnar, þeir urðu ekki fórnarlömb evrópskra stjórnarhugmynda jafn rækilega og Norðurlönd. Íslendingar virðast alltaf hafa haft meiri vilja til að lifa lífinu í frelsi upp á gott og vont, meiri þörf fyrir lífsfyllingu eigin frumkvæðis og sjálfsbjargarinnar en öryggi skipulagsins. Afkomendur Norðmanna, Vestmanna eða Kelta, þjóðflutningaþjóðanna, Finna, hversu margir sem þeir nú voru af hverjum hóp, komu hingað til þess að njóta eigin frumkvæðis og frelsa sig frá evrópskum stjórnarherrum. Þeir mynduðu nýja sérstaka þjóð og komu á fót stjórnskipulagi og menningu sem var frábrugðið því sem var að þróast í Evrópu. Við þurfum því í raun og veru ekki að leita upprunans eða ættfræðinnar til að svara spurningunni hvort Íslendingar séu sérstakir eða öðruvísi en aðrir Norðurlandsbúar, við höfum aðrar sannanir; þeir sem komu höfðu öðruvísi skapgerð og voru andlega skyldir, það var það sem sameinaði þá. Íslendingarnir völdu frelsið og áhættuna, þeir vildu nota eigið frumkvæði og sjá um sig sjálfir, hafa sína skoðun á hlutunum, sína eigin hugsun og tjáningu. Á nútímamáli er hægt að segja að Haraldur lúfa hafi gefið landanum erfðavísi eða arfbera í nesti sem ver hann gegn ofstjórnarhugmyndum, múgsefjun og áróðri af ýmsu tagi. Sá arfur greinir Íslendingar frá öðrum Norðurlandabúum.“