Laugardagur 18. nóvember 2000

323. tbl. 4. árg.

Er frumvarp viðskiptaráðherra tóm steypa?
Er frumvarp viðskiptaráðherra tóm steypa?

Ekki er víst að allir átti sig á því, en á Íslandi hafa frá árinu 1973 verið í gildi lög til jöfnunar flutningskostnaðar á sementi. Síðan lögin voru sett hefur margt breyst og fleira fólk áttar sig á því í dag en fyrir 27 árum að ríkisforsjá er ekki af hinu góða, hvorki í framleiðslu á vörum né dreifingu þeirra. Þess vegna hefur á þessum ríflega aldarfjórðungi til dæmis verið leyft að flytja inn sement í samkeppni við innlendan framleiðanda. Þetta er auðvitað til bóta, enda fráleitt af ríkinu að banna samkeppni fólks og fyrirtækja.

Af þessum sökum hefði það getað verið gleðiefni að viðskiptaráðherra leggur á yfirstandandi þingi fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun flutningskostnaðar á sementi. Þetta frumvarp hefði getað til dæmis getað hljóðað upp á það að 1. grein sementsjöfnunarlaganna félli úr gildi. Það hefði líka mátt fella 2. greinina úr gildi. Þá hefði sú 3. mátt missa sín. 4. greinin er jafn þarflaus, og svo má áfram telja. Þetta hefðu verið eðlilegar breytingar og í anda þeirra jákvæðu breytinga sem almennt hafa orðið í viðskiptalífinu hér á landi frá því lögin voru sett.

En út á hvað gengur þá hin mikla breyting? Gengur hún út á að draga úr jöfnuninni eða jafnvel fella hana niður? Nei, því miður er það nú ekki svo. Breytingin gengur út á það hvernig skipað er í stjórn flutningsjöfnunarsjóðsins vegna breytinga á samkeppni á þessum markaði. Ráðherrann hyggst sem sagt gera lítils háttar tæknilega útfærslubreytingu í stað þess að gera raunverulega lagabót.

Lög nr. 62 30. apríl 1973 um jöfnun flutningskostnaðar á sementi eru gott dæmi um óþörf lög. Eða það sem verra er, þau eru dæmi um lög sem gera beinlínis ógagn. Eina breytingin sem þarf að gera á þeim og fleiri sambærilegum lögum er að koma þeim út úr íslenska lagasafninu.